Skorað á stjórnvöld að líta til skuldbindinga vegna ástandsins í Afganistan

Afganistan er það land í heiminum þar sem hlutfall fatlaðs fólks af mannfjölda er hæst. Í að minnsta kosti einni af hverjum fimm fjölskyldum í Afganistan er einstaklingur með alvarlega líkamlega, vitsmunalega, skynjunartengda eða sálfélagslega fötlun. Stór hluti þeirra milljóna Afgana sem eru nú á flótta innanlands er fatlað fólk sem á í erfiðleikum með að fá mannúðaraðstoð. [1]

Fólk sem neyðist til að flýja heimili sín vegna styrjalda, ofbeldis eða ofsókna er allt í brýnni þörf fyrir stuðning og vernd. Ríkjum er skylt að veita þá vernd samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasamningum. Fatlað fólk sem neyðist til að flýja heimili sín er sérstaklega berskjaldað.

Reynslan sýnir að þegar fólk flýr stríðsátök er mikil hætta á að fatlað fólk sé hreinlega skilið eftir eða fari á mis við þá aðstoð sem veitt er flóttafólki. Vegna fötlunar sinnar á það erfiðara með að leita skjóls en annað fólk og þarf að þola ofbeldi og misnotkun af ýmsu tagi. Fatlað fólk, sem missir aðstandendur sína eða verður viðskila við þá á stríðstímum, einangrast mjög oft og fær ekki lágmarksstuðning.

Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Ísland, eins og flest ríki í heiminum hefur skuldbundið sig til að virða og framfylgja, segir m.a.:

Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir, í samræmi við skuldbindingar sínar að þjóðarétti, þar með talið alþjóðleg mannúðarlög og alþjóðleg mannréttindalög, til þess að tryggja að fatlað fólk njóti verndar og öryggis þegar hættuástand ríkir, að meðtöldum vopnuðum átökum, neyðarástandi sem kallar á mannúðaraðstoð og náttúruhamförum.

Þessi skylda íslenskra stjórnvalda til að veita fötluðu fólki sem leitar skjóls hér á landi vernd og viðeigandi stuðning á við hvort sem um er að ræða flóttafólk sem hér leitar skjóls eða kvótaflóttafólk sem íslensk stjórnvöld í samstarfi við alþjóðlegar stofnanir bjóða skjól hér á landi. Við allar ákvarðanir varðandi kvótaflóttafólk þarf að gæta þess sérstaklega að fötluðu fólk bjóðist sú vernd og nauðsynlegur stuðningur alls ekki síður en öðru flóttafólki.

Íslensk stjórnvöld hafa lýst því yfir að þau hyggjast bjóða flóttafólki frá Afganistan skjól í þeirri mannúðarkrísu sem nú ríkir í landinu. Landssamtökin Þroskahjálp skora á íslensk stjórnvöld og flóttamannanefnd að fara sérstaklega yfir alþjóðlega samninga, þ.m.t. samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, lög og reglur og alla framkvæmd í málaflokknum til að tryggja að þau standi vel við allar skyldur sínar varðandi vernd og stuðning gagnvart fötluðu fólki. Samtökin hvetja til þess að sérstaklega sé gætt að vernd fyrir þá sem mest þurfa á verndinni að halda, þ.e. fatlað fólk, og að einnig verði litið til aðstæðna og fólks sem barist hefur fyrir réttindum fatlaðas fólks, sérstaklega kvenna, sem geta nú verið í sérstakri hættu vegna þessrar mannréttindabaráttu sinnar. Þessari hættu er vel lýst í viðtali í The Guardian við fatlaða konu, Nilofar Bayat, sem fékk vernd á Spáni ásamt fötluðum eiginmanni sínu. Nilofar hefur barist fyrir réttindum fatlaðra kvenna í Afganistan og lýsir stöðunni sem hún var í svo:

„Ég hef verið virk í baráttunni fyrir auknum réttindum kvenna og mannréttindabaráttu fatlaðra kvenna, “sagði hún. „Ef talibanar uppgötva þetta, þá veit ég að þeir myndu drepa mig.”

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa yfir vilja til þess að leggja til sérfræðiþekkingu og stuðning við móttöku fatlaðs flóttafólks frá Afganistan.

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálp.

 

Bréfið var sent á  forsætisráðherra, félagsmálaráðherra, dómsmálaráðherra, utanríkisráðherra og flóttamannanefndar.