SOWC skýrsla UNICEF: Ósýnilegu börnin

Skýrsla UNICEF
Skýrsla UNICEF
Í dag kom út skýrsla frá UNICEF sem fjallar um stöðu barna á Heimsvísu. Þetta árið fjallar skýrslan um börn með fötlun. Þroskahjálp fagnar því að þetta komi inn í umræðuna og að vakin sé athygli á þessum málum og stöðunni sem fatlað fólk býr við. „Það er mikið gagn af því að fá svona skýrslu en hún vekur athygli á því að fatlað fólk, hvort sem það eru börn eða fullorðnir, er útsett fyrir ofbeldi,“ segir Gerður Árnadóttir, formaður Þroskahjálpar.

Í dag kom út skýrsla frá UNICEF sem fjallar um stöðu barna á Heimsvísu. Þetta árið fjallar skýrslan um börn með fötlun. Þroskahjálp fagnar því að þetta komi inn í umræðuna og að vakin sé athygli á þessum málum og stöðunni sem fatlað fólk býr við.

„Það er mikið gagn af því að fá svona skýrslu en hún vekur athygli á því að fatlað fólk, hvort sem það eru börn eða fullorðnir, er útsett fyrir ofbeldi,“ segir Gerður Árnadóttir, formaður Þroskahjálpar.

Ár hvert kortleggur UNICEF stöðu barna á heimsvísu með útgáfu skýrslunnar State of the World's Children. Í ár var áhersla lögð á börn með fötlun eins og áður er nefnt og samkvæmt skýrslunni eru fötluð börn oft utanveltu, falin og gleymd. UNICEF hvetur til breyttra viðhorfa í þessum efnum enda sé það til hagsbóta fyrir alla.

Meta þarf fötluð börn að verðleikum og meðtaka þau sem mikilvæga þátttakendur í samfélaginu frekar en að einblína á takmarkanir þeirra og sjá þau sem þiggjendur. Breytt viðhorf eru til hagsbóta fyrir alla. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, um stöðu barna í heiminum.

Möguleikum, getu og hæfileikum fatlaðra barna eru oft takmörk sett vegna viðtekinna viðhorfa í samfélaginu. Oft er einblínt á hvað fötluð börn geta ekki gert frekar en að horfa til þess hvers þau eru megnug. Í skýrslu UNICEF er undirstrikað að börnin sjálf og samfélagið allt nyti góðs af því ef þetta breyttist. Öll börn eiga ófrávíkjanleg réttindi og fötluð börn eru þar ekki undanskilin. Skapa verður samfélag þar sem allir hafa möguleika á að taka virkan þátt.
 
„Að einblína á fötlun barns í stað þess að beina sjónum að manneskjunni sjálfri er ekki einungis rangt gagnvart barninu sem um ræðir heldur fer samfélagið um leið á mis við allt sem barnið hefur fram að færa,“ segir Anthony Lake, framkvæmdastjóri UNICEF.
Árleg skýrsla UNICEF, State of the World´s Children, geymir yfirgripsmestu upplýsingar sem fyrir liggja um stöðu barna í ríkjum heims, auk þess sem kastljósinu er í hvert sinn beint að ákveðnum málaflokki. Í þetta sinn er sjónum fólks beint að börnum með fötlun, enda málaflokkurinn lengi farið lágt.