Stríð og friður, flóttafólk og boðskapur jólanna.

Á landsþingi Landssamtakanna þroskahjálpar í október sl. var samþykkt eftirfarandi ályktun varðandi flóttafólk: Landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar hvetur stjórnvöld til að huga sérstaklega að alþjóðlegum skyldum til að taka tillit til þarfa fatlaðs fólks fyrir stuðning og vernd við mótun og framkvæmd stefnu í málefnum flóttafólks. Þá hvetur landsþingið stjórnvöld til að beita sér fyrir því í alþjóðlegu samstarfi varðandi vanda flóttafólks að sérstaklega verði hugað að þeirri miklu þörf fyrir vernd og stuðning sem fatlað fólk á stríðshrjáðum svæðum hefur.

Stríð og friður, flóttafólk og boðskapur jólanna.

Á  landsþingi Landssamtakanna þroskahjálpar í október sl. var samþykkt eftirfarandi ályktun varðandi flóttafólk:

Landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar hvetur stjórnvöld til að huga sérstaklega að alþjóðlegum skyldum til að taka tillit til þarfa fatlaðs fólks fyrir stuðning og vernd við mótun og framkvæmd stefnu í málefnum flóttafólks. Þá hvetur landsþingið stjórnvöld til að beita sér fyrir því í alþjóðlegu samstarfi varðandi vanda flóttafólks að sérstaklega verði hugað að þeirri miklu þörf fyrir vernd og stuðning sem fatlað fólk á stríðshrjáðum svæðum hefur.

Reynslan sýnir að þegar fólk flýr stríðsátök er mikil hætta á að fatlað fólk sé skilið eftir og geti ekki nálgast þá aðstoð sem veitt er flóttafólki. Þá verður fatlað fólk við þessar aðstæður sérstaklega berskjaldað fyrir ofbeldi og misnotkun af ýmsu tagi. Fatlað fólk, sem missir aðstandendur sína eða verður viðskila við þá á stríðstímum, verður mjög oft félagslega einangrað og án nauðsynlegs lágmarksstuðnings. Það er því ekki nokkur vafi á að fatlað fólk er enn varnarlausara, og vanræktara á stríðstímum en endranær og þá er fatlað fólk sem þarf að flýja heimili sín vegna stríðsátaka eða af öðrum ástæðum enn þá berskjaldaðara en flóttafólk almennt.

Í síðustu viku mátti í fjölmiðlum lesa viðtal við Pál Biering, geðhjúkrunarfræðing, sem fór á vegum Rauða krossins til Grikklands í haust til að vinna með flóttafólki. Páll lýsir þar þeim hrikalega erfiðu aðstæðum sem flóttafólkið býr þar við og því skeytingarleysi sem það þarf að þola. En hann lýsir því einnig hvað fólk getur sýnt mikla manngæsku og samstöðu við erfiðar aðstæður og segir:

Mér er mjög minnistæður ungur sýrlenskur maður sem hafði lamast við það að það féll sprengja á húsið hans og fjölskyldan hans dó. Og vinir hans fjórir höfðu skipst á að bera hann alla leið.

Þegar vopnuð átök eiga sér stað hvílir sú skylda á þeim sem þátt taka í þeim að gera það sem í þeirra valdi stendur til að hlífa óbreyttum borgurum við skaðlegum afleiðingum átakanna. Þá er vitað og viðurkennt að tilteknir hópar fólks eru sérstaklega berskjaldaðir fyrir skaðlegum afleiðingum vopnaðra átaka og hefur alþjóðasamfélagið staðfest það og skuldbundið sig til að taka sérstakt tillit til þess í ýmsum mannúðar- og mannréttindasamningum. Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er kveðið á um þessar skyldur í 11. gr. þar sem segir að ríki skuli gera allar nauðsynlegar ráðstafanir „til þess að tryggja að fatlað fólk njóti verndar og öryggis þegar hættuástand ríkir, að meðtöldum vopnuðum átökum, neyðarástandi sem kallar á mannúðaraðstoð og náttúruhamförum.“

Viðbrögð fólks við því þegar fjölskyldum albanskra barna sem glíma við alvarlega sjúkdóma var vísað úr landi nýlega lýstu vel samhug og vilja almennings. Landssamtökin Þroskahjálp telja engan vafa á að íslenskur almenningur lítur eins á mál fatlaðs fólks sem býr við ógn á stríðshrjáðum svæðum og þarf að flýja heimili sín.

Samtökin hvetja íslensk stjórnvöld til að huga sérstaklega að alþjóðlegum skyldum ríkja til að taka sérstakt tillit til þarfa fatlaðs fólks fyrir stuðning og vernd við mótun og framkvæmd stefnu í málefnum flóttafólks hér á landi og við meðferð mála og ákvarðanir í þeim.

Og þar sem nú eru að koma jól er ekki úr vegi fyrir okkur öll að hugsa svolítið um hvað átt var við með þessum orðum:

Allt sem þér gerðuð ekki einum minna minnstu bræðra, það hafið þér ekki heldur gert mér.

Og gleymum aldrei gullnu reglunni:

Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.

 

Gleðileg jól!