Þroskahjálp fagnar því að koma eigi í veg fyrir aukakostnað fatlaðs fólks vegna aðstoðarmanna

Formaður Þroskahjálpar, Unnur Helga Óttarsdóttir, segir frumvarpið mikilvægt, enda þurfi allt fatlað…
Formaður Þroskahjálpar, Unnur Helga Óttarsdóttir, segir frumvarpið mikilvægt, enda þurfi allt fatlað fólk að fá tækifæri til að vera þátttakendur í samfélaginu.

Þroskahjálp fagnar tillögum félags- og vinnumarkaðsráðherra að frumvarpi sem miðar að því að draga úr kostnaði fatlaðs fólks vegna aðstoðarmanna þeirra. Samtökin hvetja til þess að frumvarpið gangi í gegn og verði að lögum í óbreyttri mynd. Þau leggja þó einnig til að kannað verði hvort stofna megi sérstakan ferðastjóð fyrir fatlað fólk, vegna kostnaðar aðstoðarmanna.

Ókeypis aðgangur hjá hinu opinbera

Frumvarpið snýst í grófum dráttum um að ráðherra fái heimild til að færa í reglugerð að fatlað fólk sem þurfi á aðstoðarmanni að halda geti fengið sérstakt aðstoðarmannakort. Kortið veiti aðstoðarmanninum ókeypis aðgang hjá hinu opinbera, svo sem á söfn, í sund, í strætó og þess háttar. Að auki er stefnt að því að fatlað fólk beri ekki kostnað af fæði starfsmanns.

Frumvarpið er núna í samráðsgátt stjórnvalda og landssamtökin Þroskahjálp hafa skrifað umsögn um það þar sem þau fagna frumvarpinu. Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar, segir mjög mikilvægt að allt fatlað fólk hafi tækifæri til að vera þátttakendur í samfélaginu.

„Sökum fötlunar eru margir sem þurfa aðstoðarmanneskju með sér til þess að fara til dæmis í leikhús eða út að borða. Eins og þetta er núna þá þarf viðkomandi oft á tíðum að greiða tvöfalt fyrir aðstoðarmanninn sinn. Þannig að þetta er fljótt að tikka fyrir fatlað fólk sem er kannski einungis með örorkulífeyrisgreiðslur. Þetta getur munað verulega, fjárhagslega.“

Þurfa oft að greiða mat fyrir aðstoðarmenn

Þótt það sé misjafnt eftir sveitarfélögum þarf fatlað fólk í sumum tilfellum að greiða mat fyrir aðstoðarmenn sína, til dæmis ef viðkomandi er með liðveislu og fer út að borða.

„Það vantar alveg samræmdar reglur hjá sveitarfélögum á öllu landinu. Þetta er mismunandi eftir sveitarfélögum. Sumsstaðar fær starfsmaðurinn ekkert greitt ef hann þarf að bera einhvern kostnað af þjónustunni en í öðrum sveitarfélögum eru mögulega rúmlega 5.000 krónur á mánuði, sem er fljótt að fara.“

Tillögur ráðherra snúa að afþreyingu hjá hinu opinbera en Unnur Helga vonast til þess að hægt verði að virkja einkageirann líka.

„Þannig að veitingastaðir og annað gætu þá gefið aðstoðarmanni afslátt. Fá bara samfélagið í þetta með okkur. Það finnst mér mjög mikilvægt.“

Þroskahjálp segir í umsögn sinni að vert sé að skoða möguleika á að birta lista yfir þau fyrirtæki sem taka þátt í slíkum samfélagsverkefnum, og greiða þar með leið fatlaðs fólks að ýmiss konar þjónustu. Einnig að athuga hvort grundvöllur sé fyrir einhvers konar samstarfi við önnur ríki, þannig að fylgdarkort geti einnig gilt þar, til dæmis á Norðurlöndunum.

Leggja til stofnun ferðasjóðs

Í umsögn Þroskahjálpar um frumvarpið er líka lagt til að sérstaklega verði skoðað hvort stofna megi ferðasjóð fyrir fatlað fólk til að mæta kostnaði af ferðum fylgdarfólks. Margir geti ekki ferðast einir og vilji ekki endilega ferðast með foreldrum, heldur skoða heiminn sjálfir.

„Og þá þarf viðkomandi að greiða flugfargjald, uppihald og hótelgistingu fyrir viðkomandi. Þannig að það eru ekkert allir sem hafa tækifæri til þess. Ég veit ekki hvort þetta verði tekið til greina en ég vildi koma því að.“

Unnur Helga segist vongóð um að frumvarpið nái fram að ganga.


Viðtalið við Unni birtist fyrst á Rúv.is