Halldór Þormar Halldórsson, umsjónarmaður sanngirnisbóta
Þessa dagana hafa sanngirnisbætur verið til umræðu í Speglinum á Rás 1. Rætt hefur verið við þá Bárð R. Jónsson, einn Breiðavíkurdrengjanna og Halldór Þormar Halldórsson, umsjónarmann sanngirnisbóta.
Þroskahjálp hefur í 14 ár lagt mikla áherslu á að vistheimili og stofnanir þar sem fatlað fólk hefur verið vistað verði rannsakaðar af sama krafti og alvarleika og önnur úrræði sem hafa verið til rannsóknar. Ljóst er að margt fatlað fólk og fötluð börn hafa þurft að þola ómannlega og vanvirðandi meðferð og aðbúnað, og vanrækslu á stofnunum og stöðum á vegum stjórnvalda, enda sýna allar rannsóknir að fatlað fólk sem dvelst á stofnunum er í mjög aukinni hættu á að verða fyrir slíkri meðferð sem og hvers kyns ofbeldi. Þá á þessi hópur enn erfiðara með að sækja rétt sinn en aðrir hópar sem beittir hafa verið órétti.
Barátta Þroskahjálpar hefur leitt m.a. af sér rannsókn á vistun barna á Kópavogshæli en eins og haft er eftir Bryndísi Snæbjörnsdóttur, fyrrverandi formanni Þroskahjálpar, í viðtali frá árinu 2018 er rík ástæða til að fara ofan í saumana á starfsemi margra annarra stofnana og vistunarstaða. Aðeins hefur lítill hluti þeirra enn verið skoðaður. Það er brýnt og mikið réttlætismál að stjórnvöld geri það án frekari tafa.
Þá er tilefni til að minna á mikilvægi þess að stjórnvöld uppfylli þá skýru skyldu sína að veita fötluðu fólki fullnægjandi stuðning og upplýsingar þegar það hefur verið vistað á slíkum stöðum, í samræmi við þarfir þeirra og aðstæður. Ef það er ekki gert, er hætta á því að stjórnvöld beiti fólk aftur miklum órétti, með því að koma ekki til móts við þarfir þeirra, og brjóti þannig aftur á þeim í stað þess að reyna að rétta hlut þeirra.
Við þökkum Speglinum kærlega fyrir umfjöllun sína og höldum áfram að berjast fyrir réttlæti fyrir fatlað fólk.
Smelltu hér til að sjá umfjöllun á RÚV.