Loftmynd af Arnarholti. Skjáskot úr fréttatíma RÚV.
Vegna frétta um Arnarholt senda Landssamtökin Þroskahjálp þeim sem urðu fyrir vanrækslu og ofbeldi á Arnarholti og öðrum sambærilegum stofnunum og aðstandendum þeirra baráttukveðjur. Þetta eru hræðilegar frásagnir sem láta engan ósnortinn. Þá vilja samtökin þakka fyrir þessa mikilvægu umfjöllun, en fatlað fólk og hagsmunasamtök þeirra hafa áratugum saman barist fyrir áheyrn stjórnvalda vegna sambærilegra mála.
Það er mikilvægt að læra af sögunni, gera upp fortíðina og nýta reynsluna til að gera allt sem hægt er til að sagan endurtaki sig ekki.
Landssamtökin Þroskahjálp krefja stjórnvöld um að grípa tafarlaust til ráðstafna til að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig með því að tryggja réttarvernd fatlaðs fólks og eftirlit með að það njóti grundvallarmannréttinda:
- Allir staðir þar sem fatlað fólk var vistað verði rannsakaðir, eins og lagt er til í skýrslu nefndar um Kópavogshæli frá 2016. Stjórnvöld hafa dregið lappirnar í þessum málum, eins og sést til dæmis í máli Ólafs Hafsteins Einarssonar og fleira fatlaðs fólks sem voru vistað var á Bitru, þar sem jafnframt var rekið fangelsi fyrir konur.
„Árétta ber að nefndin telur að minnsta kosti ljóst að uppgjör eigi að taka til stofnana/heimila þar sem fötluð börn voru vistuð. Með hliðsjón af stöðu og reynslu fólks með þroskahömlun almennt telur nefndin einnig mjög brýnt að skoða hvort uppgjör eigi að takmarkast við þá einstaklinga sem vistaðir voru sem börn eða taka til fólks með þroskahömlun almennt.“ (Bls. 344 í skýrslu um Kópavogshæli)
- Tryggja fullnægjandi fjármögnun réttindagæslu fyrir fatlað fólk og tryggja að hún sé sem óháðust stjórnvöldum: þeim sem henni er skylt að hafa eftirlit með og veita aðhald.
- Setja á fót sjálfstæða Mannréttindastofnun í samræmi við Parísar-meginreglurnar. Hún skal hafa eftirlit með að fatlað fólk njóti mannréttinda, eins og íslensk stjórnvöld skuldbundu sig til að gera þegar þau fullgiltu samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016.
- Leggja þegar í stað fram frumvarp um lögfestingu samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, eins og Alþingi samþykkti mótatkvæðalaust með þingsályktunartillögu þann 3. júní 2019, „með það að markmiði að samningurinn verði lögfestur eigi síðar en 13. desember 2020“, eins og segir í þingsályktuninni.
- Fullgilda valkvæðan viðauka við samning SÞ um réttindi fatlaðs fólk, sem veitir fötluðu fólki fleiri leiðir og betri tækifæri til að standa vörð um mannréttindi sín, eins og Alþingi ákvað að skyldi gert fyrir árlsok 2017 með þingsályktun sem samþykkt var mótatkvæðalaust 20. september 2017.
- Að tryggja að teknir verði út allir staðir sem reknir eru enn í dag og hafa einkenni stofnana, þ.e. að fatlað fólk dvelst þar um langan tíma allan sólarhringinn, sefur þar, stundar vinnu og tekur þátt í félagslíf og afþreyingu, m.t.t. þess hvernig þeir uppfylla samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Þessir staðir verði um alla tíð undir sérstöku og sjálfstæðu eftirliti.