Vel heppnuð ráðstefna um tækifæri barna og ungmenna í íþróttastarfi

Hilmar Snær Örvarsson, skíðamaður hélt erindi.
Hilmar Snær Örvarsson, skíðamaður hélt erindi.

Í gær fór fram vel heppnuð ráðstefna um tækifæri fatlaðra barna og ungmenna í íþróttastarfi sem haldin var á vegum Landssamtakanna Þroskahjálpar, félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, mennta- og barnamálaráðuneytisins, heilbrigðisráðuneytisins, Íþróttasambandi fatlaðra og Öryrkjabandalags Íslands.

Alls voru 50 erindi og um 200 manns sem sóttu ráðstefnuna úr öllum kimum samfélagsins. Þroskahjálp fagnar að loksins sé vakin athygli á íþróttamálum fatlaðra barna og ungmenna enda mikilvægt að fagna fjölbreytileikanum á öllum sviðum. Flest fötluð börn og ungmenni ganga í sinn hverfisskóla og umgangast félaga sína á hverjum degi en þegar kemur að íþróttaiðkun þá eru þau ekki í sama mengi. 

Landssamtökin Þroskahjálp hafa lagt sérstaklega mikla áherslu á að tryggja fötluðum börnumn og ungmennum sömu tækifæri og öðrum börnum á öllum sviðum samfélagsins. Við viljum margbreytilegt samfélag og jöfn tækifæri fyrir alla.  Þetta eru miklilvægar hugsjónir og veigamikil mannréttindi og mega ekki verða bara orðin tóm. Við verðum að leggja okkur öll fram við að breyta samfélaginu þannig að enginn verði skilinn eftir, enginn verði útundan, eins og er leiðarljósið í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Almennt aðgengi að íþróttum eftir áhugasviði er af skornum skammti, en fötluð börn hafa auðvitað áhuga á að æfa almennar íþróttir eins og önnur börn, sama hvort um ræðir fótbolta, frjálsar íþróttir, skíði eða blak.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar vakti í erindi sínu á ráðstefnunni athygli á þessu: „Setjum okkur í spor barna sem að langar að stunda sömu íþróttir og bekkjarfélagar þeirra, vera í eins íþróttapeysum, vera í sama félagskap, fara í æfingaferðir, vonir þeirra og væntingar og vonbrigðin að fá ekki að taka þátt á þeirra forsendum. Allir geta stundað íþróttir með réttum stuðningi og viðmóti. Það hef ég upplifað í tengslum við íþróttaiðkun dóttur minnar. Að fá að taka þátt þar sem þau eru stödd og upplifa sigra gefur þeim mikið og hef ég séð marga stækka um nokkur númer eftir persónulega sigra.“

Unnur segir að íþróttaiðkun eigi ekki einungis að snúast um afreksþjálfun, atvinnumennsku eða keppnir. Íþróttaiðkunn á að snúast um ánægjuna af íþróttinni og hafa gaman og auðvitað jákvætt keppnisskap, pepp og uppbyggilegt starf.

„Sem kennari til margra ára hef ég fylgst með ungmennum sem mörg ætla sér stóra hluti í framtíðinni og stundum hafa  framtíðardraumar þeirra ræst en aðrir hellast úr lestinni því að þeir eru ekki bestir, fljótastir, hraðastir og jafnvel hætta allri íþróttaiðkunn. Stundum myndast mikið tómarúm og þessir einstaklingar eiga í erfiðleikum með að finna sinn takt í lífinu og finnast þeir ekki tilheyra neinum hóp. Íþróttaiðkun er góð fyrir líkama og sál, eflir félagsfærni, samstöðu og lífsgleði. Hvað er sannur

 íþróttaandi? Jú án fordóma, liðsheild, heiðarleiki, kurteisi, agi, stundvísi og finnast þú tilheyra hópnum eða félaginu,“ sagði Unnur.

Þá tók Sunna Dögg Ágústsdóttir, verkefnastjóri ungmennaráðs Þroskahjálpar, einnig til máls á ráðstefnunni og flutti frábært erindi um inngildingu eða inclusion og hvað það þýðir að taka þátt. 

Sunna Dögg, starfsmaður ungmennaráðs heldur rafrænt erindi. Hún er í kjól sem er eins og íslenski fáninn og lógó Þroskahjálpar sést í rammanum.

Landssamtökin Þroskahjálp munu fylgja eftir að þau fjölmörgu erindi sem flutt voru, við góðar undirtektir, verði nýttar til að bæta tækifæri og aðstöðu fatlaðra barna og ungmenna í íþróttastarfi.

 

Sunna Dögg Ágústsdóttir, starfsmaður
ungmennaráðs hélt erindi um inngildingu.