Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar
Í framhaldi af útkomu skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um yfirtöku Strætó á ferðaþjónstu fatlaðra, birta Landssamtökin Þroskahjálp leiðara formanns samtakanna. Leiðarinn birtist í nýjasta tölublaði Tímaritsins Þroskahjálpar í apríl síðastliðnum.
Í framhaldi af útkomu skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um yfirtöku Strætó á
ferðaþjónstu fatlaðra, birta Landssamtökin Þroskahjálp leiðara formanns samtakanna. Leiðarinn birtist í nýjasta tölublaði
Tímaritsins Þroskahjálpar í apríl síðastliðnum.
Leiðari Bryndísar Snæbjörnsdóttur, formanns Þroskahjálpar:
Samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks „skulu [sveitarfélög] gefa fötluðu fólki kost á
ferðaþjónustu. Markmið ferðaþjónustu fatlaðs fólks er að gera þeim sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki vegna
fötlunar kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda.“ Á höfuðborgarsvæðinu hafa sveitarfélögin rekið
ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk hvert með sínu sniði, þangað til um nýliðin áramót. Um nokkurt skeið hafa menn velt
fyrir sér möguleikum á því að sameina þennan rekstur til að auka hagkvæmni, sveigjanleika og aðgengi að
ferðaþjónustunni.
Hagsmunasamtök fatlaðs fólks hafa kallað eftir breytingum, einkum hvað varðar möguleika fólks á að ákveða ferðir
með skemmri fyrirvara, stytta ferðatíma og auka sveigjanleika. Um síðustu áramót tók til starfa Akstursþjónusta Strætó bs. sem
hefur það hlutverk að sinna akstursþjónustu við fatlað fólk sem býr í sveitarfélögunum á
höfuðborgarsvæðinu utan Kópavogs. Strætó bs. byrjaði með því að taka í notkun nýtt tölvukerfi og prófaði
það fyrst í Reykjavík í nóvember og desember 2014. Gerðir voru samningar við akstursfyrirtæki um að útvega bíla og
bílstjóra eftir útboð, en þjónustuver og utanumhald var í höndum Strætó. Nýtt fyrirkomulag ferðaþjónustu fyrir
fatlað fólk virtist líta vel út og bæði kjörnir fulltrúar í sveitarstjórnum á svæðinu og embættismenn
trúðu því líklega sjálfir að hér væri verið að taka stórt framfaraskref í þessum málum.
Eins og alþjóð veit virðist allt sem gat farið úrskeiðis hafa farið úrskeiðis við innleiðingu nýs fyrirkomulags
á þessari þjónustu. Atvik sem upp komu í tilraunaferlinu í Reykjavík gáfu tilefni til þess að staldrað yrði við og gerð
almennileg úttekt á því hvort þetta kerfi virkaði sem skyldi og hvort innleiðing þess væri skynsamleg á þeim tímapunkti.
Það var ekki gert, heldur var haldið áfram. Nýir aðilar með nýja bílstjóra tóku við akstrinum 1. janúar 2015 og nýtt
þjónustuver tók við með nýtt tölvukerfi. Strax frá upphafi höfðu notendur og hagsmunafélög þeirra miklar áhyggjur af
framkvæmdinni. Lítið samráð var haft við hagsmunafélög notenda, einkum á seinni stigum innleiðingarinnar, og lítið tillit tekið
til ábendinga sem frá þeim komu. Fulltrúar notenda höfðu með veikum mætti reynt að hafa uppi varnaðarorð sem voru að engu höfð.
Mistök hagsmunasamtakanna voru þau að láta ekki í sér heyra með ákveðnari og formlegri hætti þegar ljóst var strax í
tilraunaverkefninu í hvað stefndi.
Við hjá Landssamtökunum Þroskahjálp höfðum strax töluverðar áhyggjur af því að þetta verkefni
væri ekki nógu vel undirbúið og að það skorti á þekkingu á málefnum fatlaðs fólks hjá þeim sem unnu við
undirbúninginn. Á fyrri stigum komu hagsmunafélögin að ákveðinni greiningarvinnu sem stýrt var af verkfræðistofu og gaf sú vinna vonir
og væntingar til þess að hægt væri að horfa fram á bjartari tíma í ferðaþjónustu við fatlað fólk. Eftir mörg
atvik sem ekki virðast hafa verið tekin alvarlega gerðist það að ung stúlka týndist í marga klukkutíma. Það þurfti svona
alvarlegt atvik til þess að eigendur Strætó bs. (þ.e. fulltrúar sveitarfélaganna sem í hlut eiga) tækju við sér og
ákváðu þeir á eigendafundi 5. febrúar sl. að setja á laggirnar sérstaka stjórn ferðaþjónustu fatlaðra
(neyðarstjórn). Einnig var samþykkt að Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar skyldi standa fyrir óháðri úttekt á aðdraganda,
innleiðingu og framkvæmd ferðaþjónustu fatlaðra hjá Strætó. Fulltrúar þriggja hagsmunasamtaka voru skipaðir í þessa
stjórn ásamt fulltrúum frá hverju sveitarfélagi.
Farið var í að greina vandann og leita lausna til að laga ástandið. Það er alveg ljóst að aðkoma hagsmunasamtakanna að
þeirri vinnu sem nú þegar hefur farið fram hefur skipt sköpum og leiða má að því líkur að þetta nýja fyrirkomulag
akstursþjónustu hefði aldrei verið sett á laggirnar ef menn hefðu borið gæfu til að leita til hagsmunasamtakanna fyrr og hafa þau með í
ráðum í gegnum allt breytingaferlið, ekki einungis í upphafi.
Nú hefur hin sérstaka stjórn skilað af sér, en hún var einungis skipuð til fjögurra vikna. Ný verkefnisstjórn hefur
tekið við og er hennar hlutverk m.a. að framkvæma tillögur hinnar sérstöku stjórnar og koma málefnum akstursþjónustunnar í
viðunandi horf. Þrátt fyrir að Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar hafi ekki enn skilað sinni skýrslu er ljóst að í
undirbúningsferlinu voru gerð mörg og alvarleg mistök. Reynslan sýnir að þrátt fyrir góðan vilja skortir víða á skilning
kjörinna fulltrúa og embættismanna á sveitarstjórnarstiginu á málefnum fatlaðs fólks. Við hjá Landssamtökunum
Þroskahjálp höfum lagt okkur fram um að fræða og upplýsa þetta fólk til að auka skilning þeirra á mannréttindum. Auka
skilning á því að fatlað fólk á að búa við sambærileg mannréttindi og allir aðrir og að fötluðum þurfi
að mæta sem einstaklingum með þarfir hvers og eins í huga, þar sem fatlað fólk hefur afar margbreytilegar þarfir og jafnvel mun margbreytilegri en
gengur og gerist um fólk almennt. Vorið 2014 héldum við fundi með frambjóðendum í tíu sveitarfélögum í samstarfi við
Sjálfsbjörg og Blindrafélagið með það að markmiði að kynna þarfir og væntingar notenda til þeirrar þjónustu sem
sveitarfélögum er ætlað að sinna gagnvart fötluðu fólki. Eftir kosningar sendum við svo öllum kjörnum fulltrúum í
sveitarstjórnum landsins fræðslubæklinginn „Við eigum samleið“ þar sem finna má gagnlegar upplýsingar um málefni fólks
með þroskahömlun.
Ég held að það sé óhætt að fullyrða að hagsmunasamtökin eru öll af vilja gerð til að fræða og
leiðbeina fólki sem starfar í sveitarstjórnarmálum og embættismönnum á þeirra vegum um málefni fatlaðs fólks á
uppbyggilegan og vandaðan hátt. Það er mikilvægt að þessir aðilar hleypi okkur að sér og hlusti og læri af þeim sem best þekkja
til. Reynsla af innleiðingu nýrrar ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk, þar sem góður hugur var í upphafi fyrir betri þjónustu
en skortur á samráði við notendur verður vonandi til þess að bæta þjónustu við fatlað fólk á öllum sviðum
samfélagsins. Við þurfum að læra af mistökunum sem þarna voru gerð og tryggja að svona gerist ekki aftur.
Stefnuskrá Landssamtakanna Þroskahjálpar er byggð á alþjóðlegum mannréttindasáttmálum sem miða að
sambærilegum mannréttindum til handa öllum óháð kyni, aldri, stétt, fötlun eða stöðu að öðru leyti. Þetta eru
réttindi sem þjóðir heimsins hafa komið sér saman um að virða og við Íslendingar sem viljum telja okkur þjóð meðal
þjóða höfum enga afsökun fyrir því að leyfa aðgreinandi úrræði fyrir ákveðna þjóðfélagshópa.
Við þurfum og viljum eitt samfélag fyrir alla óháð t.d. fötlun, það er ekki erfitt að skilja. Það þarf bara vilja. Vilja til
að skilja og framkvæma af skynsemi og þekkingu. Þetta á við um alla þjónustu sem fólk þarf á að halda vegna fötlunar sinnar,
ekki bara ferðaþjónustuna, og þetta á við um þjónustu við allt fatlað fólk óháð því hvernig skerðingar
það hefur eða hvar það kýs að búa á landinu.
Bryndís Snæbjörnsdóttir,
formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar
TENGT EFNI:
- Skilningsleysi á þörfum notenda - Frétt mbl.is
18.05.2015
- Veikleikarnir helst í framkvæmdinni - Frétt mbl.is
19.05.2015