X-13 - Framboðin spurð

Tímaritið Þroskahjálp birti í síðasta tölublaði sínu spurningar sem samdar voru að Átaki, félagi fólks me þroskahömlun. Ekki svöruðu öll framboðin fyrir þann frest sem gefin var, en eftir að blaðið birtist var mikið haft samband við skrifstofu Þroskahjálpar. Til að verða við beiðni flokkana sem ekki svöruðu eru svör þerra sem sendu í blaðið birt hér ásamt þem svörum sem komu á eftir. Viljum við þakka stjórnmálahreyfingum fyrir að bregðast svona vel við þessum spurningum.

Tímaritið Þroskahjálp birti í síðasta tölublaði sínu spurningar sem samdar voru að Átaki, félagi fólks me þroskahömlun. Ekki svöruðu öll framboðin fyrir þann frest sem gefin var, en eftir að blaðið birtist var mikið haft samband við skrifstofu Þroskahjálpar. Til að verða við beiðni flokkana sem ekki svöruðu eru svör þerra sem sendu í blaðið birt hér ásamt þem svörum sem komu á eftir. Viljum við þakka stjórnmálahreyfingum fyrir að bregðast svona vel við þessum spurningum.

Spurningarnar sem sendar voru:

  1. Hvað finnst ykkur um að breyta kosningalögum þannig að allir fatlaðir einstaklingar hafi möguleika á að kjósa?
  2. Hvað finnst ykkar framboði um framtíð Diplómanáms við Háskóla Ísland fyrir fólk með þroskahömlun?
  3. Hver er stefna þíns framboðs um lögfestingu um Sáttmála Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks?
  4. Hver er stefna ykkar flokks í búsetumálum fatlaðs fólks.
  5. Hvernig ætlið þið að tryggja nægt fjármagn til málaflokksins?

Svör Flokkanna

  1. Hægri grænir eru flokkur einstaklingsframtaks en um leið flokkur sem styður samhjálp. Hægri grænir styðja það að allir geti nýtt sér lögboðinn kosningarétt sinn og þær lagabreytingar sem þurfa til að slíkt megi verða. Sérstaklega er þetta mikilvægt í því rafræna umhverfi sem framtíðin býður okkur.
  2. Allir eiga rétt til náms og diplómanám fyrir einstaklinga með fötlun hlýtur að vera metið á grunni áhuga, vilja og getu einstaklinga og kröfum háskólasamfélagsins til slíks náms. Samfélagið styður við nemana og sér til þess að umhverfi og umgjörð geri flestum jafn hátt undir höfði.
  3. Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks byggir á grunngildum Hægri grænna þ.e. virðingu fyrir einstaklingnum hvernig sem hann er gerður. Hægri grænir styðja lögfestingu þessa sáttmála.
  4. Hægri grænir styðja að þannig sé búið að íbúum þessa lands að þeim sé gert kleyft að búa sómasamlega fötlun eða ekki fötlun.
  5. Hægri grænir styðja góð mál innan velferðarkerfisins og munu leggja því lið að nægt fjármagn fáist til þessa málaflokks, stefna flokksins er einnig að auðvelda einstaklilngsframtak í þessum málaflokk sem öðrum.

Með bestu kveðjum
Fh Hægri grænna
Guðmundur F. Jónsson

  1. Svar: Já, Húmanistaflokkurinn lítur svo á að rétturinn til að kjósa séu mannréttindi.
  2. Svar: Einn af hornsteinunum í stefnu Húmanistaflokksins er að við höfnun allri mismunun. Þroskahamlað fólk á að njóta jafnréttis við aðra og hafa sömu möguleika og aðrir til þess að stunda diplómanám við H.Í.
  3. Svar: Húmanistaflokkurinn telur að það eigi að lögfesta sáttmálann, reynsla m.a. af sáttmálanum um réttindi barna að erfitt reyndist að framkvæma hann þar til hann var lögfestur sem íslensk lög.
  4. Svar: Fatlað fólk á að eiga kost á húsnæði sem tekur tillit til þeirrar fötlunar sem það býr við án þess að þurfa að greiða meira fyrir húsnæði sitt af þeim völdum en aðrir. Framfærsla fatlaðs fólks ættu að taka mið af neysluviðmiðun sem tryggi þeim mannsæmandi afkomu, þar með fullnægjandi húsnæði.
  5. Svar: Það eru nægir peningar til í þjóðfélaginu. Húmanistaflokkurinn vill færa til fjármagn m.a. með skattlagningu. Við viljum skattleggja fjármálakerfið, leggja svonefndan Tobin skatt á allar fjámagnstilfærslur, háan skatt á ágóða af spákaupmennsku og hækka skatta á ofurgróða bankanna. Samanlagður vaxtakostnaður ríkisins, heimilanna og atvinnulífsins er 400 milljarðar á hverju ári sem svarar til meira en helmings af fjárlögum ríkisins. Við viljumskera þennan kostnað niður og tökum því undir hugmyndir samtakann um Betra peningakerfi sem mun leiða til lægra vaxta stigs sem losar fjámagn til allra félagslegra málefna eins málefni fatlaðra.

  1. Það er mikilvægt hverju lýðræðissamfélagi að gera öllum mögulegt að kjósa. Þess vegna þarf að gera breytingar á kosningalögum þannig að allt fólk geti, ef það þarf vegna fötlunar, fengið aðstoð, samkvæmt eigin vali.
  2. Samfylkingin hefur alla tíð stutt nám fatlaðra nemenda við hlið ófatlaðra á öllum skólastigum, með þeim stuðningi sem þeir þurfa á hverjum tíma. Fólk með þroskahömlun þarf að geta stundað frekara nám til að eiga möguleika á betri vinnu eins og aðrir. Því hlýtur Diplómanámið í HÍ að halda áfram, enda góð reynsla af því, það þarf svo að fara að finna fleiri námsbrautir sem henta þessum hópi.
  3. Landsfundir Samfylkingarinnar  hafa samþykkt að fullgilda eigi strax Sáttmála Sameinuðu þjónanna um réttindi fatlaðs fólks. 
    Með löggildingu Barnasáttmálans nýlega, sem er fyrsti sáttmáli SÞ sem er löggiltur hér á landi, er sjálfsagt að stefna að lögfestingu sáttmálans um réttindi fatlaðs fólks. Þar með yrði vægi hans hér á landi meira þar sem stjórnvöld og dómstólar landsins yrðu að taka mið af honum við úrlausnir mála sem varða fatlað fólk.
  4. Fatlaðir eins og ófatlaðir eiga að hafa val um búsetu. Þeir eru fjölbreyttur hópur, sumir vilja leigja, aðrir kaupa sér húsnæði, sumir vilja búa einir og aðrir með öðrum. Ríki og sveitarfélög eiga að tryggja fjármagn til að fólk fái þjónustu við sitt hæfi, þar sem það býr, óháð því hver á húsnæðið. Þeir sem búa við fatlanir sem kalla á sérhannað húsnæði eiga að fá slíkt húsnæði hjá sínu sveitarfélagi.
  5. Samfylkingin er stjórnmálaflokkur sem er tilbúin til að tala fyrir hærri sköttum til að eiga fyrir velferðarþjónustu, ekki síst fatlaðs fólks. Síðustu ár hefur verið erfitt að setja aukið fé í þennan málaflokk þegar allir hafa þurft að skera mikið niður t.d. Landspítalinn og lögreglan.  En þegar atvinnulífið batnar og skuldir Íslands minnka, þá verður meira fjármagn til. Samfylkingin vill að þá fari meira  fjármagn til þess að fatlað fólk fái aukin réttindi því fatlað fólk hefur allt of lengi búið við það að fá þörfum sínum ekki fullnægt.

  1. Með lögum sem samþykkt voru á Alþingi í haust var gerð sú breyting að fatlaðir fá núna að nota aðstoðarmann að eigin vali á kjörstað.
  2. Í stefnu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í menntamálum er lögð áhersla á að menntun sé fyrir alla og að það sé samfélagsskylda að stuðla að því að sem flestir njóti háskólamenntunar. Í stjórnartíð Vinstri-grænna hefur diplomanám við Háskóla Íslands fyrir þroskahamlaða verið fest í sessi og að sama skapi hefur birst skýr forgangsröðun á tímum efnahagsþrenginga og niðurskurðar þannig að reynt hefur verið að hlífa starfsbrautum framhaldsskóla. Það er okkar eindreginn vilji að festa í sessi diplómanámið við HÍ og að byggja upp fleiri námstilboð fyrir fólk með fötlun á háskólastigi.
  3. Vinstrihreyfingin – grænt framboð styður sáttmálann og vill lögfesta hann til þess að standa vörð um réttindi fatlaðs fólks. Markmið og meginreglur sáttmálans varða mannréttindi og möguleika fatlaðra til þátttöku í samfélaginu á jafnréttisgrundvelli. Markmiðin og meginreglur sáttmálans eiga sér skýrar hliðstæður í stefnuyfirlýsingu VG sem grundvallast á jöfnum rétti allra til velferðar og þátttöku í samfélaginu.
  4. Búsetuform og úrræði fyrir fatlaða þurfa að taka mið af þörfum einstaklinganna og þar sem hópurinn er fjölbreyttur þurfa úrræði í búsetumálum að sama skapi að vera fjölbreytt. Vinstri græn vilja þróa þjónustu við einstaka hópa, svo sem fatlaða og aldraða, þannig að þeir notendur sem vilja geti stýrt þjónustunni sjálfir. Í nýrri byggingareglugerð sem unnin var í samráði við Öryrkjabandalagið er gert ráð fyrir stórauknu framboði íbúða með aðgengi fyrir alla.
  5. Vinstrihreyfingin – grænt framboð er flokkur jöfnuðar og réttlátrar skiptingar. Á kjörtímabilinu hefur verið lögð áhersla á að draga úr sköttum lágtekjuhópa samhliða því sem álögur hafa aukist á þá einstaklinga sem hafa úr meiru að spila. Sem dæmi um slíkt má nefna þrepað skattkerfi, líkt og í hinum Norðurlöndunum, og auðlegðarskatt sem leggst á u.þ.b. 2.000 ríkustu fjölskyldur landsins. Á sama tíma hefur verið bætt í greiðslur til þeirra sem mest þurfa, sbr. t.d. vaxtabætur og stuðning við barnafjölskyldur. Vinstri-græn leggja áherslu á að svigrúm sem skapast í ríkisrekstrinum verði nýtt til uppbyggingar heilbrigðis-, velferðar- og menntamála.

  1. Einkunnarorð Lýðræðisvaktarinnar eru að allir sitji við sama borð. Svarið helgast af því.
  2. Lýðræðisvaktin tekur glöð við ábendingum um stöðu námsins og hvað megi betur fara. Afstaða yrði svo tekin í framhaldi af því.
  3. Lýðræðisvaktin er fylgjandi lögfestingu þessa samnings.
  4. Lýðræðisvaktin tekur glöð við ábendingum um stöðu þessara mála og hvað megi betur fara. Afstaða yrði svo tekin í framhaldi af því.
  5. Lýðræðisvaktin stundar ekki gylli- né yfirboð. Engu að síður er Lýðræðisvaktin með á sinni stefnuskrá (xlvaktin.is) að setja málefni aldraðra og öryrkja í forgang þegar kemur að velferðarþjónustu. Í viðleitni okkar til að tryggja fé í þennan málaflokk vill Lýðræðisvaktin hætta við byggingu nýs Landspítala. Slík stórframkvæmd myndi soga til sín megn þeirra peninga sem ætlaðir eru til heilbrigðismála á næstu árum með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Einnig vill Lýðræðisvaktin að þjóðin fái réttmætan arð af auðlindum sínum. Slíkt gæti tryggt málefnum fatlaðra aukið fjármagn.

  1. Björt framtíð vill að allt fatlað fólk geti kosið með þeim hætti sem er aðgengilegur. Við viljum einnig að að allt fatlað fólk geti valið hver aðstoði það við að greiða atkvæði sitt í kjörklefa og að ekki sé mismunað á grundvelli skerðingar eins og lög gera nú ráð fyrir. Kosningalögum þarf að breyta í samhengi við þær kröfur sem settar eru fram í Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
  2. Við teljum mikilvægt, á grundvelli mannréttinda, að fólk með þroskahömlun hafi aðgang og möguleika til þess að stunda nám á öllum skólastigum. Stefna okkar í skólamálum er sú að námsframboð eigi að vera fjölbreytt og gera ráð fyrir margbeytileika nemendahópsins. Okkur finnst það lykilatriði að nám fyrir fólk með þroskahömlun, hvort sem það er innan háskólans eða utan, hafi skýr markmið og stuðli að auknum tækifærum fyrir fólk með þroskahömlun til frekari menntuninar og í atvinnulífinu líkt og fyrir ófatlað fólk.
  3. Við teljum að mikilvægt sé að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks með það að markmiði að breyta lagaumhverfinu á Íslandi í samræmi við skuldbindingar hans. Þó teljum við jafnframt mikilvægt að lögfesta hann svo hann hafi raunverulegt lagalegt gildi og tryggi betur réttarstöðu fatlaðs fólks sem fyrst.
  4. Við leggjum höfuðáherslu á að þjónusta við fatlað fólk þróist með þeim hætti að hún skapi fötluðu fólki tækifæri til að eignast eða leigja eigið húsnæði sjálft eða með þeim sem það kýs að búa. Við horfum mikið til notendastýrðar persónulegrar aðstoðar í þessu samhengi og viljum að fatlað fólk geti tekið fullan þátt á öllum sviðum samfélagsins og lifað sjálfstæðu lífi, utan stofnanna. Við gerum okkur þó grein fyrir að um langtímaverkefni er að ræða og að mikilvægt er að framboð á aðgengilegu húsnæði á viðráðanlegu verði sé fyrir hendi fyrir fatlað fólk óháð því hversu mikla eða litla aðstoð það þarf.
  5. Við leggjum mikla áherslu á að þjónusta við fatlað fólk verði skoðuð vandlega, bæði hugmyndafræðilega og fjárhagslega. Mikilvægt er að fjármagnið sem er fyrir hendi sé nýtt í úrræði sem henta og skilar fötluðu fólki lífi þar sem það býr við mannréttindi og dregið sé úr því að fjármagn sé nýtt í óhentug og aðgreinandi úrræði. Við viljum framkvæma þannig að við hugsum líka um hvað mun koma sér vel fyrir alla í framtíðinni.

    Við viljum líka að á Íslandi sé fjármálakerfið öruggt. Við viljum að peningarnir sem verða til af auðlindunum okkar skili sér til fólksins í landinu svo hægt sé að bæta lífskjör þess. Við trúum því að fjölbreytni í atvinnulífinu sé mikilvæg og að stutt verði við skapandi greinar, tækniþróun, framleiðslu og við að auka þekkingu okkar, t.d. með því að gera rannsóknir og prófa nýja hluti. Þannig verður bæði til meira fjármagn og nýjar hugmyndir fyrir allt fólk í landinu svo það geti verið hamingjusamara og búið við mannréttindi, líka fatlað fólk.

    Björt framtíð mun beita sér fyrir því að nægt fjármagn verði sett í málaflokkinn og að það verði nýtt fötluðu fólki til framdráttar á öllum sviðum.

  1. Framsókn vill standa vörð um mannréttindi fatlaðs fólks, að nýta lýðræðislegan rétt sinn óhindrað er ein af þeim. Nauðsynlegt er að skoða þær orðalagsbreytingar sem gerðar voru á kosningalögunum nýlega sem hindrar fólk ennþá  í því að geta nýtt kosningarétt sinn.
  2. Framsókn styður jafnrétti til náms á öllum skólastigum. 
  3. Framsókn vill standa vörð um mannréttindi fatlaðs fólks, innleiðing sáttmálans er hluti af því.
  4. Framsókn vill gera fötluðum kleift að búa í sinni heimabyggð og auka raunverulegt val hvað varðar búsetu- og þjónustuúrræði.
  5.  Framsóknarmenn geta ekki litið framhjá þeirri staðreynd að forsenda velferðarinnar er og verður ávallt verðmætasköpun í atvinnulífinu. Þegar færri peningar eru til kiptanna verður að leita nýrra og betri leiða til að tryggja velferðina.

    Engin samfélagsleg ábyrgð felst í að ávísa útgjöldum dagsins í dag á framtíðarkynslóðir.

    Framsókn sér að atvinna er undirstaða vaxtar og velferðar. Það er því forgangsverkefni er að fjölga störfum í landinu.

  1. Rétturinn til að kjósa og velja fulltrúa til þings og sveitarstjórna, taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslum og forsetakjöri,  er hornsteinn lýðræðisins. Það er skylda hins opinbera að tryggja að allir hafi möguleika til að nýta sér þennan rétt sem má aldrei skerða.
    Sjálfstæðisflokkurinn er hlyntur því að breyta kosningalögum á þennan hátt. Sigurður Kári Kristjánsson ásamt þingmönnum Sjálfstæðisflokksins flutti frumvarp um breytingar á kosningalögum í anda samnings Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í aðdraganda stjórnlagaþingskosninga árið 2011. Í því frumvarpi kemur vilji Sjálfstæðisflokksins skýrt fram hvað þetta varðar.
  2. Sjálfstæðisflokkurinn hefur alla tíð lagt áherslu á að ungt fólk hafi tækifæri til menntunar óháð fjárhag, búsetu eða annarra ástæða. Diplómanámið við HÍ hefur sannað gildi sitt og því ber yfirvöldum að tryggja framtíð þess, þróa það áfram og auka.
  3. Sjálfstæðisflokkurinn telur brýnt að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra verði lögfestur.
  4. Málefna fatlaðs fólks tóku stakkaskiptum þegar Sjálfstæðisflokkurinn var í ríkisstjórn 1991 til 2008 enda var staða fatlaðs fólks  mjög slæm í byrjun þess tímabils. Þróaðar voru hugmyndir um sambýli fatlaðs fólks sem enn þarf að bæta. Næstu skref verður að þróa enn frekar notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) sem verið er að taka fyrstu skrefin til. Trúr stefnu sinni um frelsi og sjálfstæði einstaklingis mun Sjálfstæðisflokkurinn áfram standa vörð um málefni fatlaðs fólks. Það á að sjálfsögðu líka við um búsetumál fatlaðs fólks. Staða og þarfir fatlaðs fólks gagnvart búsetu er mjög mismunandi og taka þarf mið af því. Þeir sem geta búið einir fá til þess nauðsynlega aðstoð og þeim, sem hentar betur að búa á sambýlum, verði gert það kleift.
  5. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt áherslu á nauðsyn þess að forgangsraða þegar teknar eru ákvarðanir um útgjöld ríkis og sveitarfélaga. Þar skal fyrst tryggja heilbrigðisþjónustu fyrir alla, menntun, löggæslu og mannsæmandi kjör. Verkefni komandi missera og ára er að byggja upp skattstofna ríkisins og þar með auka möguleika hins opinbera til að sinna málefnum sem allir vilja að staðið sé að með myndarlegum hætti. Útgjöld til málaflokksins hafa aldrei hækkað jafn mikið og í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins. Það er ljóst að forgangaraða verður í þágu hans, það hyggst Sjálfstæðisflokkurinn áfram gera hafi hann tækifæri til þess.

  1. Kosningakerfi Pírata er aðgengilegt í gegnum tölvu. Svipað fyrirkomulag fyrir allar kosningar hefði í för með sér stórbætt aðgengi fyrir alla, sérstaklega fatlaða. Geti viðkomandi ekki nýtt sér tölvu þarf að finna aðrar lausnir sem viðkomandi er sátt við, hvort sem það er að velja hjálparkokk sem hún/hann treystir eða annað sem sá fatlaði stingur upp á.
  2. Píratar vilja mjög miklar breytingar í menntakerfinu. Við lítum svo á að nám fari fram alls staðar, ekki bara innan skólaveggja. Allar starfsgreinar og svið samfélagins eiga að vera endurspegluð í menntakerfinu. Við vinnum lýðræðislega og lítum á okkur sem þjóna fólksins. Því myndum við leita til þeirra sem málið varðar, fólks með þroskahömlun og diplómakennara við HÍ, og leita bestu mögulegu lausna á grundvelli þeirra samræðna og annarrar sérfræðiþekkingar.
  3. Við höfum ekki samið ályktun um það en hættulítið er að fullyrða að fullgilding samningsins yrði samþykkt í þátttökulýðræðiskerfinu okkar þar sem það fellur eins og flís við rass að grunnstefnu Pírata um eflingu borgararéttinda. Frambjóðendur Pírata hafa líka talað með fullgildingunni á opinberum vettvangi.
  4. Píratar vilja almennt séð auka valmöguleika fólk til búsetu og í þessu eins og öðrum veigamiklum málum leitum við til þeirra sem hafa sérþekkingu á sviðinu og annarra þeirra sem málið varðar. Ákvarðanir eru svo teknar í samráði við fólkið. Það er oft svolítið erfitt fyrir okkur að koma því á framfæri hvernig við vinnum, vegna þess að fólk er ekki vant því að iðka stjórnmál á þann hátt. Stikkorðin eru: Sem þingmenn verðum við farvegur fyrir vilja fólksins.
  5. Við höfum ekki rætt það. Betur sjá augu en auga, og stefna Pírata er að opna bókhald og möguleika á að taka þátt í ákvörðunum. Það er fullt af fólki í samfélaginu sem hefur vit á öllu mögulegu. Það er hvatning fyrir fólk að taka þátt og finna lausnir þegar það fær slík tækifæri upp í hendurnar? Við trúum því. Með auknu gagnsæi og þátttöku fólksins er hægt að ná fram hagræðingu í rekstri ríkisins og taka betri ákvarðanir.

  1. Hér á Íslandi á að vera jafnrétti burt séð frá kyni, þjóðerni, stöðu og fötlun. Fatlaðir einstaklingar að eiga fullan rétt á að kjósa líkt og hver annar Íslendingur og engar hindranir, sýnilegar eða ósýnilegar, mega koma í veg fyrir að þeir geti nýtt rétt sinn. Við erum öll jöfn og það að einhver eigi við fötlun að stríða á ekki að hafa áhrif á hans lýðræðislegu réttindi.
  2. Við í Regnboganum erum mjög hlynnt diplómanámi við HÍ fyrir fólk með þroskahömlun. Það er sjálfsagður hlutur að fólk með þroskahömlun hafi tækifæri til að stunda nám við HÍ og aðrir.
  3. Það er afar brýnt að setja þetta í forgang að innleiða þennan sáttmála. Við viljum jafnrétti á öllum sviðum- það eru allir jafnir og allir eiga að eiga sama rétt. Það má ekki slá slöku við þessa innleiðingu, vandar þarf til þess verks og ætlar Regnboginn á sjá til þess að þetta verkefni verði í forgrunni.
  4. Það þarf að stuðla að fjölbreytileika í búsetumálum fólks með fötlun. Einnig er mikilvægt að tryggja nægjanlegt framboð þannig að allir geti fundið búsetuúrræði við hæfi. Sumum hentar að vera í fjölbýli með öðrum þar sem öll þjónusta er fyrir hendi á meðan öðrum hentar að búa einir út í bæ en fá þá heimaþjónustu eftir þörfum. Það má ekki horfa á þessi  úrræði á svart hvítan hátt. Heldur horfa á þarfir hvers og eins.
  5. Það er afar brýnt mál að tryggja nægt fjármagn í þennan mikilvæga málaflokk. Því miður hefur orðið hann orðið fyrir miklum niðurskurði undanfarin ár og úr því þarf að bæta. Auka fé í jöfnunarsjóð er ein leið til að tryggja fjármagn.

  1. Dögun styður mannréttindi handa öllum kosningarétturinn er hluti af þeim.
  2. Okkur skilst að diplómanámið hafi gefist vel og því um að gera að halda því áfram.
  3. Dögun vill lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
  4. Dögun vill sjá sem mestan sveigjanleika í búsetumálum fatlaðs fólks og að allir eigi möguleika á að lifa sem bestu lífi. Aðstoð við fatlað fólk á að snúast um þarfir þess en ekki þarfir starfsfólks eða sveitarfélagsins. Dögun styður hugmyndafræði NPA og vill allir sem þurfa og vilja geti nýtt sér slíka þjónustu sem eykur möguleika fatlaðs fólks til búsetu á eigin vegum og önnur lífsgæði.
  5. Ísland er land ríkt af auðlindum og tryggja þarf arð þjóðarinnar af þeim. Einnig þarf að endursemja um skuldir ríkisins en núna fer ein af hverjum sex krónum sem ríkið aflar í að greiða vexti. Svo þarf að forgangsraða í þágu velferðarkerfisins.

  1. Það eru sjálfsögð mannréttindi allra að fá að nýta sinn kosningarétt. Fatlað fólk er þar engin undantekning. Þar sem Landsbyggðarflokkurinn hefur jöfnuð landsmanna að leiðarljósi á það einnig við í þessu máli. Fatlaðir einstaklingar sem þarf aðstoð á kjörstað á sjálft að fá að velja sinn aðstoðarmann, velja þann einstakling sem það treystir best til að aðstoða sig, sé þess þörf án þess að þessi mikla fyrirhöfn sem nú er tilgreind í kosningalögum hamli þátttöku í kosningum.
  2. Diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun á að vera tryggt og aðgengilegt, alveg eins og aðrar námsbrautir Háskólans. Það eiga allir sem vilja að geta bætt við sig námi, þekkingu og þroska og það á líka við um fólk með þroskahömlun.
  3. Það er alveg klárt að það er ekki nóg að hafa undirritað sáttmálann og halda að þá hafi nóg verið gert. Það er mjög mikilvægt að lögfesta sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks vegna þess að í því  felst frekari réttarvernd heldur en í fullgildingu.
  4. Fatlað fólk á að hafa val um búsetuform. Það þarf að bjóða upp á fjölbreytt úrræði og stuðla að því að fatlað fólk geti búið eitt og rekið heimili að eigin geðþótta og með því aðstoðarfólki sem það kýs.
  5. Með því að hluti af veiðileyfagjaldi og auðlindaskatti fari frá ríkinu til sveitarfélaga, sem mörg hver fóru illa út úr kvótaframsali, er hægt að tryggja þessum málaflokki aukið fjármagn.

Fleiri hafa ekki sent inn svör við þessum spurningum þrátt fyrir að hafa fengið um það tölvupóst.