Landssamtökin Þroskahjálp lýsa miklum áhyggjum vegna upplýsinga sem fram hafa komið um mjög slæma meðferð fólks á öryggis- og réttargeðdeildum Landspítalans. Þær upplýsingar byggja á frásögnum núverandi og fyrrverandi starfsfólks á deildunum og hljóta því að teljast mjög trúverðugar. Þar er lýst mjög alvarlegum brotum gegn grundvallarmannréttindum fólks.
Virðing fyrir eðlislægri reisn, sjálfræði einstaklinga, þ.m.t. frelsi til að taka eigin ákvarðanir, og sjálfstæði einstaklinga eru grundvallaþættir í mannréttindum sem kveðið er á um í íslensku stjórnarskránni og lögum að allir skuli njóta og ríkið vernda og tryggja. Þessi grundvallarréttindi fólks eru einnig áréttuð með skýrum hætti í mörgum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undirgengist og skuldbundið sig til að virða og framfylgja.
Landssamtökin Þroskahjálp taka heilshugar undir þá kröfu Geðhjálpar að án tafar fari fram vönduð rannsókn á hvernig meðferð fólks og aðbúnaður hefur verið og er á öryggis- og réttargeðdeildum Landspítalans og að stjórnvöld tryggi strax og til framtíðar að fólk sem þar dvelst njóti óskertra mannréttinda og að óháð, trúverðugt og virkt eftirlit sé haft með þeirri starfsemi sem þar fer fram.