Yfirlýsing Landsamtakanna Þroskahjálpar vegna ofbeldisbrots á leikskóla Kópavogsbæjar.
Landssamtökin Þroskahjálp lýsa yfir undrun og vonbrigðum hvernig tekið var á ofbeldisbroti gegn fötluðu barni hjá leikskóla Kópavogsbæjar.
Nýverið féll dómur í Héraðsdómi Reykjaness í máli þar sem þroskaþjálfi var dæmdur til að greiða skaðabætur fyrir að beita fatlað barn ofbeldi á leikskóla í Kópavogi. Í dómnum segir að tvö atvik hafi átt sér stað, og voru aðstandendur barnsins ekki látnir vita fyrr en eftir að ofbeldið hafði endurtekið sig.
Það er með öllu óviðunandi að fötluð börn og aðstandendur þeirra geti ekki treyst því að öryggi þeirra sé tryggt og að aðstandendum sé haldið utan við alvarleg atvik. Rannsóknir sýna að fatlað fólk er í sérstakri hættu að verða fyrir ofbeldi og það er skylda stjórnvalda og starfsmanna hins opinbera að verja þau og taka á slíkum brotum af festu. Glími starfsmenn við veikindi sem gætu orðið til þess að þeir missi stjórn á skapi sínu og geti ekki tekist á við hegðunaráskoranir nemenda, ber stjórnendum skylda til að taka á því og tryggja öryggi og velferð fatlaðra barna í hvívetna.