Dómur í máli Salbjargar Óskar Atladóttur

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur kveðið upp dóm í máli ungrar fatlaðrar konu, Salbjargar Óskar Atladóttur, gegn Reykjavíkurborg. Niðurstaða þessa dóms og sú túlkun laga og reglna sem þar er að finna hlýtur að valda miklum vonbrigðum og áhyggjum öllum þeim sem vilja búa í samfélagi án aðgreiningar þar sem mannréttindi eru í hávegum höfð og markvisst er að því stefnt að gefa öllum tækifæri til að lifa sem eðlilegustu lífi. Niðurstaða dómsins og rökstuðningurinn fyrir henni er sérstakt

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur kveðið upp dóm í máli ungrar fatlaðrar konu, Salbjargar Óskar Atladóttur, gegn Reykjavíkurborg. Niðurstaða þessa dóms og sú túlkun laga og reglna sem þar er að finna hlýtur að valda miklum vonbrigðum og áhyggjum öllum þeim sem vilja búa í samfélagi án aðgreiningar þar sem mannréttindi eru í hávegum höfð og markvisst er að því stefnt að gefa öllum tækifæri til að lifa sem eðlilegustu lífi.

Niðurstaða dómsins og rökstuðningurinn fyrir henni er sérstakt umhugsunarefni í ljósi þess að í málinu reyndi mest á túlkun ákvæða laga um málefni fatlaðs fólks en í 1. grein þeirra segir skýrt og skorinort:

Markmið þessara laga er að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi.

Þessi dómur stenst afar illa þann mælikvarða sem þarna er settur og hlýtur þetta markmiðsákvæði laganna að eiga að vera það leiðarljós sem skal hafa við túlkun á öðrum ákvæðum þeirra.

Í 1. grein laga um málefni fatlaðs fólks segir einnig:

Við framkvæmd laga þessara skal tekið mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Meginreglur samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks eru:

  • Virðing fyrir eðlislægri mannlegri reisn.
  • Sjálfræði einstaklinga, þar með talið frelsi til að taka eigin ákvarðanir.
  • Sjálfstæði einstaklinga.
  • Bann við mismunun.
  • Full og virk þátttaka í samfélaginu án aðgreiningar.
  • Jöfn tækifæri.

Ekki þarf að hafa mörg orð um hversu illa umræddur dómur samræmist þessum meginreglum samningsins.

Íslenska ríkið undirritaði samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2007 og skuldbatt sig þar með til að gera ekkert sem gengi gegn honum. Íslenska ríkið vinnur nú að því að fullgilda samninginn, eins og langflest ríki heims hafa þegar gert, og skuldbindur sig með því til að uppfylla öll skilyrði og kröfur sem gerðar eru í þessum mikilvæga mannréttindasamningi.

Í 4. grein samningsins segir:

Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og grundvallarfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar.

Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:

a)      að samþykkja öll viðeigandi lagaákvæði og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til þess að innleiða þau réttindi, sem eru viðurkennd með samningi þessum,

b)      að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar með talið á sviði lagasetningar, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin.

Áréttað skal að umræddur dómur var kveðinn upp í héraðsdómi og hefur því ekki fordæmisgildi með sama hætti og dómar Hæstaréttar. En ef það er svo að íslenskir dómstólar túlki lög og reglur sem eiga að „tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi“, eins og gert er í þessum dómi verður íslenska ríkið að bregðast við til að tryggja að lög og reglur sem ríki og sveitarfélög setja og vinna eftir tryggi fötluðu fólki, án mismununar, þann rétt og þau tækifæri til sjálfstæðs og eðlilegs lífs sem samningur Sameinuðu þjóðanna mælir fyrir um. Annars eru skilyrði til fullgildingar samningsins ekki uppfyllt.

Þetta getur íslenska ríkið gert með því að breyta núgildandi lögum og reglum til að ekki fari á milli mála hvaða réttindi fatlað fólk á að njóta og dómstólar eiga að tryggja því eða með því að fullgilda ekki aðeins samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks heldur taka samninginn einnig í íslensk lög eins og gert var með Barnasáttmálann árið 2013.

 

Landssamtökin Þroskahjálp.