Efni: Frumvarp um heimild til framlengingar á einkaleyfi til reksturs talnagetrauna.

Heil og sæl Unnur Brá. Við beinum þessu erindi til þín sem formanns allsherjar og menntamálanefndar. Eins og þú veist er nefndin með til umfjöllunar frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um happdrætti og talnagetraunir (framlenging starfsleyfa) - Þingskjal 236 — 224. mál. Í 4. gr. frumvarpsins er lagt til að framlengd verði til ársins 2034 heimild ráðherra til að veita Íþróttasambandi Íslands, Ungmennafélagi Íslands og Öryrkjabandalagi Íslands leyfi til þess að starfrækja saman, í nafni félags sem samtök þessi stofna (Íslensk getspá) svonefndar talnagetraunir. Með sömu lögum er sú starfsemi bönnuð öðrum.

Efni: Frumvarp um heimild til framlengingar á einkaleyfi til reksturs talnagetrauna.

Heil og sæl Unnur Brá.

 Við beinum þessu erindi til þín sem formanns allsherjar og menntamálanefndar.

 Eins og þú veist er nefndin með til umfjöllunar frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um happdrætti og talnagetraunir (framlenging starfsleyfa) - Þingskjal 236  —  224. mál. Í 4. gr. frumvarpsins er lagt til að framlengd verði til ársins 2034 heimild ráðherra til að veita Íþróttasambandi Íslands, Ungmennafélagi Íslands og Öryrkjabandalagi Íslands leyfi til þess að starfrækja saman, í nafni félags sem samtök þessi stofna (Íslensk getspá) svonefndar talnagetraunir. Með sömu lögum er sú starfsemi bönnuð öðrum.

Landssamtökin Þroskahjálp telja að með umræddum lögum og framkvæmd þeirra hafi samtökin mátt þola ólögmæta og alvarlega mismunun hvað varðar möguleika til tekjuöflunar. Í því sambandi vísa samtökin m.a. til skýrslu starfshóps sem dómsmálaráðherra og félagsmálaráðherra skipuðu árið1994 til að skoða hvort lög og reglur varðandi Íslenska getspá fælu í sér mismunun gagnvart Landssamtökunum Þroskahjálp. Starfshópurinn lagði umrædda skýrslu fram við nefnda ráðherra með skilabréfi, dags. 23. Júlí 1996.  Í 7. kafla skýrslunnar eru niðurstöður starfshópsins teknar saman og þar segir m.a.: „Starfshópurinn telur ýmislegt benda til að sú skoðun Þroskahjálpar að félagasamtökum sé mismunað, eigi við rök að styðjast.“ Þá segir þar m.a. varðandi heimild Íslenskrar getspár til að reka talnagetraunir: „Æskilegt er að núverandi starfsheimildir verði ekki endurnýjaðr nema þessi mál verði fyrst skoðuð og metin heildstætt.“

Eins og fyrr sagði er í umræddu frumvarpi gert ráð fyrir að ráðherra geti framlengt starfsleyfi Íslenskrar getspár og þann einkarétt til tekjuöflunar með tilteknum hætti sem leyfið felur í sér til ársins 2034. Allsherjar- og menntamálanefnd hefur sent frumvarpið 7 aðilum til umsagnar með fresti til að skila umsögnum til 23. nóvember 2015. Landssamtökin Þroskahjálp hafa ekki fengið frumvarp þetta til umsagnar þrátt fyrir augljósa hagsmuni samtakanna í málinu, sbr. það sem fram kemur m.a. í umræddri skýrslu.

 

Landssamtökin Þroskahjálp telja að það sé alls ekki forsvaranlegt að Alþingi afgreiði 4. gr. umrædds frumvarps og þar með heimild til framlengingar á starfsleyfi Íslenskrar getspár til ársins 2034 óbreytt frá því sem verið hefur í ljósi þeirrar miklu og augljósu óvissu sem er um að það fyrirkomulag standist lög hvað varðar jafnræði og félagafrelsi, sbr. m.a. það sem fram kemur í tilvitnaðri skýrslu starfshóps dóms- og félagsmálaráðherra.

 Með vísan til þess sem að framan er rakið óskum við eftir að fá fund með þér sem formanni allsherjar- og menntamálanefndar til að gera þér betur grein fyrir málinu og hvernig það horfir við Landssamtökunum Þroskahjálp. Við teljum afar mikilvægt að fá slíkan til að koma stjórnarmiðum og rökum samtakanna á framfæri áður en nefndin fjallar frekar um frumvarpið eða afgreiðir það.

Bestu kveðjur,

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Landssamtakanan Þroskahjálp.

 Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálp,