Flóra og LUF hljóta Múrbrjótinn

Verðlaunahafar Múrbrjótsins 2020, f.v. Geir Finnsson og Tinna Isebarn frá LUF, Steinunn Ólína Haflið…
Verðlaunahafar Múrbrjótsins 2020, f.v. Geir Finnsson og Tinna Isebarn frá LUF, Steinunn Ólína Hafliðadóttir og Berglind Brá Jóhannsdóttir frá Flóru.

Múrbrjótur Landssamtakanna Þroskahjálpar var afhentur í dag, en viðurkenningin er veitt þeim sem að mati samtakanna hafa brotið niður múra í réttindamálum og viðhorfum til fatlaðs fólks og stuðlað þannig að því að það fái tækifæri til að vera fullgildir þátttakendur í samfélaginu og til að lifa eðlilegu til jafns við aðra. Verðlaunagripurinn er smíðaður á handverkstæðinu Ásgarði þar sem fólk með þroskahömlun starfar. 

Viðurkenningin var veitt í dag í streymi á alþjóðadegi fatlaðs fólks, 3. desember.

Tvö hlutu Múrbrjótinn í ár:

Flóra

Tvær ungar konur halda á verðlaunagrip, blómvendi og viðurkenningarskjali.

Veftímaritið Flóra hlýtur Múrbrjótinn fyrir að skapa vettvang þar sem reynsluheimur fatlaðra kvenna fær umfjöllun og honum lyft í femínískri umræðu. Þrátt fyrir að hafa aðeins starfað í 2 ár hefur tímaritið skapað sér sérstöðu með umfjöllun sinni um jafnrétti og fjölbreytileika. Veftímaritið hefur skapað einstakan vettvang fyrir jaðarhópa til þess að lýsa reynslu sinni og vekja athygli á málstað sínum en fjölmargar fatlaðar konur hafa skrifað pistla og komið fram. Þá hefur tímaritið sérstaklega kallað eftir framlagi fatlaðra kvenna og þannig tryggt að  reynsluheimur þeirra fái pláss. Þar á meðal er reynsla fatlaðra kvenna af réttindabaráttu og aktívisma, margþættri mismunun, líkamsvirðingu, sjálfsást og svo mætti áfram telja.

 

Landssamband ungmennafélaga

Ungur maður og ung kona halda á verðlaunagrip, blómvendi og viðurkenningarskjali.

Landssamband ungmennafélaga, LUF, hlýtur Múrbrjótinn vegna framlags í þágu margbreytileikans og jafnra tækifæra fyrir ungt fólk. Í vikunni eftir að ungmennaráð Þroskahjálpar var stofnað hafði Landssamband ungmennafélaga samband við okkur og buðu ráðinu að sækja um aðild að sambandinu, enda tölu þau mjög mikilvægt að sá hópur sem heldur uppi starfsemi ungmennaráðs ætti fulltrúa í LUF sem mundi þannig endurspegla fjölbreytileika mannlífsins betur. Í febrúar fékk ungmennaráðið áheyrnarðild á aðalfundi sambandsins og það var mjög ánægjuleg athöfn í alla staði. Ungmennin sem voru fulltrúar ráðsins fengu mjög góðar móttökur og síðan hefur samstarfið verið afar gott. Tveir fulltrúar úr ungmennaráði eiga sæti í Leiðtogaráði LUF og hafa þeir verið sérstaklega ánægðir með samstarfið og hversu opnir aðrir fulltrúar í ráðinu eru fyrir hugmyndum og ábendingum um hvernig eigi að tryggja að sem fjölbreyttastar raddir fái að heyrast, tillit sé tekið til ólíkra þarfa allir njóti verðleika og réttinda sinna.

 

Til hamingju verðlaunahafar og takk fyrir ómetanlegt framlag ykkar til mannréttindabaráttu fatlaðs fólks!