Ályktanir Þroskahjálpar fyrir árið 2023

Á öflugum fulltrúafundi Landssamtakanna Þroskahjálpar þann 29. október 2022 voru samþykktar ályktanir með þeim málefnum sem brýnust eru í réttinda- og hagsmunabaráttu fatlaðs fólks.

Landssamtökin Þroskahjálp hafa getað fagnað mörgum sigrum sem hafa unnist í réttindabaráttu fatlaðs fólks, en það er alveg ljóst að enn er langt í land. Með þessum ályktunum skerpum við á málum sem við teljum að þurfi sérstaklega að huga að og munum við halda ótrauð áfram að knýja fram breytingar.

Við leggjum fram þessar ályktanir með von um að stjórnmálamenn, bæði á Alþingi og á sveitarstjórnarstigi, leggi við hlutstir og taki höndum saman með okkur um að vinna að hagsmunum, tækifærum og réttindum fatlaðs fólks.

Auðlesin útgáfa

Rafræn skilríki


Fulltrúafundur Landssamtakanna Þroskahjálpar krefst þess að stjórnvöld setji í algjöran forgang að leysa það neyðarástand sem þau hafa skapað í lífi fólks með þroskahömlun og aðstandenda þeirra vegna innleiðingar rafrænna skilríkja.

Fólki með þroskahömlun og skyldar fatlanir er neitað um rafræn skilríki sem hefur þær afleiðingar að fólk á í miklum erfiðleikum með að nýta réttindi sín og fá þjónustu frá hinu opinbera sem samfélaginu þykir sjálfsögð.

Stafræn framþróun er á fleygiferð og hafa stjórnvöld ákveðið að verja milljörðum í hana. Á sama tíma er alltof lítið tillit tekið til þarfa og hagsmuna jaðarsettra hópa, m.a. fatlaðs fólks.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er skýr. Tækni á að nota til að einfalda og bæta líf fatlaðs fólks, og hana má aldrei nýta til að auka á jaðarsetningu þess.

Stjórnvöld verða nú þegar að setja nægilegt fjármagn og tíma og algjöran forgang í stafræna framþróun, sem skilur engan eftir.

Hækkun örorkulífeyris

Fulltrúafundur Landssamtakanna Þroskahjálpar krefst þess að grunnörorkulífeyrir verði tafarlaust hækkaðurþannig að hann verði a.m.k. jafnhár og lágmarkslaun og tekið verði fullt tillit til fyrirsjáanlegrar verðlagsþróunar.

Fundurinn bendir á að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir: „Afkoma örorkulífeyrisþega verður áfram bætt með það að markmiði að bæta sérstaklega kjör þeirra sem lakast standa.“

Mjög brýnt er að ríkisstjórnin standi, án frekari tafa, við þessa yfirlýsingu sína því að það er augljós forsenda þess að fatlað fólk getið notið margvíslegra mikilvægra mannréttinda og tækifæra til sjálfstæðs og eðlilegs lífs, til jafns við aðra, eins og mælt er fyrir um í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að framfylgja og hyggst lögfesta.

Húsnæðismál

Fulltrúafundur Landssamtakanna Þroskahjálpar fagnar tillögum starfshóps um endurskoðun laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, varðandi húsnæðismál fatlaðs fólks og skorar á ríkisstjórnina og sveitarfélög að hrinda þeim tillögum í framkvæmd, eins skjótt og nokkur kostur er.

Margt fólk með þroskahömlun eða skyldar fatlanir hefur beðið eftir íbúð, sem það á lagalegan rétt á, mjög lengi. Dæmi eru um að fólk með þroskahömlun hafi þurft að bíða yfir áratug og jafnvel lengur eftir að eignast eigið heimili.

Með þessari óforsvaranlegu og ólöglegu framkvæmd er vegið mjög alvarlega að margvíslegum mikilvægum mannréttindum, s.s. réttinum til sjálfstæðs og eðlilegs lífs, og réttinum til að eiga einkalíf og fjölskyldulíf. Þetta er ólíðandi ástand sem ábyrg stjórnvöld ríkis og sveitarfélaga verða að setja í algjöran forgang að bæta úr.

Tölfræðiupplýsingar um heilbrigðisþjónustu við fatlað fólk

Fulltrúafundur Landssamtakanna Þroskahjálpar skorar á heilbrigðisyfirvöld að hefja nú þegar skipulega söfnun á upplýsingum, meðal annars tölfræðilegum gögnum og rannsóknargögnum, sem gerir þeim kleift að móta og framfylgja stefnu til að tryggja að fólk með þroskahömlun eða skyldar fatlanir og einhverft fólk fái viðeigandi og fullnægjandi heilbrigðisþjónustu, án mismununar.
 
Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks segir: „Aðildarríkin viðurkenna að fatlað fólk hafi rétt til þess að njóta besta mögulega heilbrigðis án mismununar á grundvelli fötlunar. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja fötluðu fólki aðgang að heilbrigðisþjónustu.“
 
Þar segir einnig: „Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að safna viðeigandi upplýsingum, meðal annars tölfræðilegum gögnum og rannsóknargögnum, sem gera þeim kleift að móta og framfylgja stefnum samningi þessum til framkvæmdar. Upplýsingar, sem er safnað samkvæmt þessari grein, skal sundurliða eftir því sem við á og nota til þess að meta hvernig aðildarríkjunum miðar að innleiða skuldbindingar sínar samkvæmt samningi þessum og til að greina og takast á við þær hindranir sem fatlað fólk stendur frammi fyrir þegar það hyggst nýta sér réttindi sín. Aðildarríkin skulu ábyrgjast miðlun fyrrnefndra tölfræðilegra upplýsinga og tryggja fötluðu fólki og öðrum aðgengi að þeim.“
 
Vísbendingar eru um að heilbrigðiskerfið taki alls ekki nauðsynlegt tillit til aðstæðna og þarfa fólks með þroskahömlun og skyldar fatlanir og einhverfs fólk og tryggi því ekki viðeigandi aðlögun, eins og því er skylt að gera samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og lögum um jafna meðferð utan vinnumarkaðar. Við þessari ólöglegu mismunun verða heilbrigðisyfirvöld að bregðast, án frekari tafa, með þeim hætti sem að framan er lýst og samningur SÞ um réttindi fatlað fólks mælir fyrir um.
 
Aðgengi fólks með þroskahömlun og einhverfs fólks að menntun og atvinnu eftir að framhaldsskóla lýkur
Á hverju ári útskrifast um 65-90 ungmenni af starfsbrautum framhaldsskólanna. Ungmenni með þroskahömlun og einhverf ungmenni hafa í dag mjög takmörkuð tækifæri til að stunda nám eftir að námi lýkur af starfsbrautum.
 
Fulltrúafundur Landssamtakanna Þroskahjálpar fagnar því að skipa eigi starfshóp til að greina núverandi starfs-og menntunartækifæri fatlaðs fólk og gera tillögur að aðgerðum til að auka náms-og starfstækifæri þessa hóps. Samtökin skora á ríkisstjórnina og sveitarfélög að leggja nú allt kapp á að hraða aðgerðum til að tryggja að öllum ungmennum sem útskrifast af starfsbrautum bjóðist áframhaldandi nám í háskólum eða öðrum skólum sem bjóða upp á verk, tækni-eða listgreinamenntun.
 

Tryggja þarf brú milli atvinnulífs og menntunar á síðustu önn starfsbrautar með starfsnámi sem leiðir til mögulega til atvinnuþátttöku á almennum markaði eða framhaldsnáms á háskólstigi. Reglur verði settar sem tryggja þetta.

Með fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 skuldbatt íslenska ríkið sig til þess að tryggja menntun fyrir alla. Í 4. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna sem hefur yfirskriftina „Menntun fyrir alla“ er kveðið á um margvíslegar aðgerðir sem ríki verða að gera til að ná því markmiði.
 
Íslensk stjórnvöld verða að sýna í verki að þau ætli að standa við skuldbindingar sínar og yfirlýsingar samkvæmt samningi SÞ og heimsmarkmiðum SÞ með því að tryggja fötluðum ungmennum tækifæri til náms til jafns við önnur ungmenni.