Fundur um rafræn skilríki

Fulltrúar Þroskahjálpar funduðu í gær með Stafrænu Íslandi, félagsmálaráðuneytinu, Réttindagæslu fatlaðs fólks og Góðvild um það neyðarástand sem skapast hefur vegna þess að stjórnvöld hafa ekki gert ráðstafanir til að tryggja að notkun rafrænna skilríkja sé aðgengileg öllu fötluðu fólki.
 
Þroskahjálp hefur s.l. 1,5 ár átt í samskiptum við hið opinbera til þess að varpa ljósi á þessa alvarlegu stöðu, en afleiðingarnar eru meðal annars að fólk getur ekki átt samskipti við heilbrigðisyfirvöld í gegnum Heilsuveru, fjármunir þess eru læstir inn á bankabókum og reikningar lenda í innheimtu, og lokað er á ýmis samskipti við stjórnvöld.
 
Það er ljóst að stjórnvöld hafa dregið lappirnar í þessum málum, enda hafa Landssamtökin Þroskahjálp ítrekað bent á stöðuna í bréfum, umsögnum við frumvörp og stefnur stjórnvalda í stafrænni framþróun og óskað eftir skipun starfshóps þvert á ráðuneyti til að leysa málið. Vandamálið hefur því átt að vera öllum ljóst í lengri tíma og á meðan eru mannréttindi fatlaðs fólks þverbrotin og þátttaka þess í samfélaginu og sjálfstæði skert.
 
Landssamtökin Þroskahjálp munu fylgja málinu eftir með öllum tiltækum ráðum.