Fundur Landssamtakanna Þroskahjálpar með félags- og jafnréttismálaráðherra.
Formaður og framkvæmdastjóri Þroskahjálpar funduðu í gær með Þorsteini Víglundssyni, félags- og jafnréttismálaráðherra. Á fundinum var farið yfir ýmis mikilvæg mál sem varða mannréttindi og hagsmuni fatlaðs fólks og lög, reglur alþjóðlega samninga, stjórnsýslu, þjónustu og eftirlit á þvi sviði.
Á fundinum tóku fulltrúar Þroskahjálpar m.a. upp eftirfarandi mál og gerðu ráðherra grein fyrir sjónarmiðum sínum varðandi þau:
- Skýrslu vistheimilanefndar um Kópavogshælið.
- Atriði sem líta þarf sérstaklega til varðandi sanngirnisbætur til fatlaðs fólks sem dvaldist á Kópavogshæli og fleiri stöðum.
- Nauðsynlegar úrbætur á reglum, stjórnsýslu og eftirliti m.a. í ljósi þess sem fram kemur í skýrslu vistheimilanefndar og tillagna nefndarinnar um úrbætur.
- Viðbrögð stjórnvalda við dómi Hæstaréttar í máli Salbjargar Óskar Atladóttur gegn íslenska ríkinu.
- Skyldu stjórnvalda til samráðs við fatlað fólk samkvæmt lögum og samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks.
- Frumvarp til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar þjónustuaþarfir.
- Notendastýrða persónulega aðstoð (NPA).
- Lögfestingu samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks.
- Fullgildingu valkvæðs viðauka við samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks skv. þingsályktun þar að lútandi.
- Atvinnumál og ónóg atvinnutækifæri fatlaðs fólks almennt og m.t.t. starfsgetumats.
- Breytingar á lögum um almannatryggingar og bókun Þroskahjálpar við frumvarp um þær.
- Húsnæðismál fatlaðs fólks.
- Eftirlit með framkvæmd þjónustu og stjórnsýslu stofnana ríkis og sveitarfélaga og nauðsynlegar úrbætur á því.
- Þörf fullorðins fatlaðs fólks fyrir sambærilega þjónustu og Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins veitir.
- Framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks.
- Möguleika félagasamtaka til fjármögnunar á starfsemi sinni.
Fundurinn var gagnlegur og vill Þroskahjálp þakka félags- og jafnréttismálaráðherra fyrir hann. Samtökin óska ráðherra velfarnaðar í þeim mikilvægu störfum sem honum hefur verið treyst fyrir, ekki síst við að tryggja og hafa eftirlit með að fatlað fólk og aðrir fái í framkvæmd þau mannréttindi sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að veita öllum, m.a. með því að gera nauðsynlegar breytingar á lögum og reglum, í stjórnkerfi, stjórnsýslu og opinberri þjónustu.
Á eftirfarandi hlekkjum má nálgast minnisblöð með áhersluatriðum sem Þroskahjálp lagði fram og fór yfir á fundinum með félags- og jafnréttismálaráðherra:
Nokkur áhersluatriði Þroskahjálpar: lesa
Aðgerðir varðandi úrbótatillögur vistheimilanefndar: lesa
Nokkur mikilvæga atriði varðandi sanngirnisbætur: lesa