Fundur Landssamtakanna Þroskahjálpar með mennta- og menningarmálaráðherra.
Formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar fundaði 26. apríl s.l. með Kristjáni Þór Júlíussyni, mennta- og menningarmálaráðherra. Á fundinum var farið yfir ýmis mikilvæg mál sem varða tækifæri og réttindi fatlaðs fólks, einkum barna og fólks með þroskahamlanir og skyldar raskanir, til menntunar og þátttöku í menningarlífi.
Á fundinum voru m.a. tekin upp eftirfarandi mál og ráðherra gerð grein fyrir sjónarmiðum Þroskahjálpar hvað þau varðar:
- Staða og mikilvægi diplómanáms í myndlist fyrir fólk með þroksahömlun, við Myndlistaskólann í Reykjavík.
- Staða og framhald diplómanáms fyrir fólk með þroskahömlun við Háskóla Íslands.
- Staða og mikilvægi Fjölmenntar. – Fjárhagslegur stuðningur ríkisins.
- Skóli án aðgreiningar (margbreytileikans) fyrir samfélag án aðgreiningar virka þátttöku og jöfn tækifæri. Skylda stjórnvalda að tryggja viðeigandi menntun kennnara, nauðsynlega sérfræðiþekkingu innan skóla og að allur aðbúnaður að skólum geri þeim kleift að mæta þörfum allra nemenda og vera með góða menntun fyrir, alla án aðgreiningar.
- Skylda stjórnvalda samkvæmt samningi Sameuinuðu þjóðanna um réttidni fatlaðs fólks til að stuðla að vitundarvakningu á öllum sviðum samfélagsins fyrir reisn, réttindum og hæfileikum fatlaðs fólks.
- Innleiðing samnings SÞ á öllum sviðum menntunar og menningarlífs.
Á fundinum var rætt um aðkomu ráðuneytisins að því að styðja við diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun í Myndlistaskólanum í Reykjavík og var spurt hvort ráðuneytið gæti tryggt fjármuni til verkefnisins. Viðbrögð ráðherra við því voru óneitanlega mikil vonbrigði því að hann virtist ekki sjá flöt á því að ráðuneytið hefði aðkomu að því máli. Þroskahjálp lýsti á fundinum mikilli óánægju með þá afstöðu, enda er ljóst að aðgengi fólks með þroskahömlun að framhaldsnámi er afar takmarkað og með því að styðja ekki við diplómanámið í myndlist er enn dregið úr möguleikum fólks með þroskahömlun til viðeigandi menntunar og þátttöku í menningarlífi sem fólki almennt býðst í íslensku samféalgi.
Landssamtökin Þroskahjálp komu því á framfæri við ráðherra á fundinum að þessi afstaða gengi gegn samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem íslenska ríkið skuldbatt sig til að virða og framfylgja sl. haust.
Þroskahjálp þakkar mennta- og menningarmálaráðherra fyrir fundinn og ítrekar þá von og ósk til ráðherra að hann finni leið til að styðja við þetta mikilvæga, eftirsótta og vel heppnaða nám sem Myndlistaskólinn í Reykjavík hefur boðið fólki með þroskahömlun og setji jafnframt af stað vinnu við að efla og auka námsframboð fyrir fólk með þroskahömlun sem hefur lengi mátt þola og þarf enn að þola alvarlega mismunun hvað varðar tækifæri til menntunar og þátttöku í menningarlífi.