Fundur Landssamtakanna Þroskahjálpar með starfshópi um gerð viðmiða um gæði frístundastarfs.

Fundur Landssamtakanna Þroskahjálpar með starfshópi um gerð viðmiða um gæði frístundastarfs.

 

Formaður og framkvæmdastjóri Þroskahjálpar funduðu 28. febrúar sl. með starfshópi sem hefur verið stofnaður til að vinna að gerð viðmiða um gæði frístundastarfs fyrir börn

Á heimasíðu mennta- og menningarmálaráðuneytisins má nálgast upplýsingar um starfshópinn, skipun hans og verkefni: lesa hér

Á fundinum með starfshópnum lögðu fulltrúar Þroskahjálpar mjög mikla áherslu á að við gerð viðmiða um gæði frístundastarfs verði tekið mið af markmiðum með stefnu um skóla án aðgreiningar og hugmyndafræði um tækifæri fatlaðs fólks til virkrar þátttöku í samfélaginu á öllum sviðum og til eðlilegs og sjálfstæðs lífs, án mismununar og aðgreiningar og skyldu stjórnvalda til að tryggja það.

Fulltrúar Þroskahjálpar áréttuðu m.a. mikilvægi þess að við gerð gæðaviðmiða um frístundastarf verði sérstaklega gætt að eftirfarandi atriðum:

  • Að öllum börnum standi til boða frístundastarf af miklum gæðum, þar sem hvert barn getur tekið virkan þátt á sínum forsendum,
  • Í frístundastarfi fyrir börn verður að vera metnaður fyrir því að laga umhverfið og daglegt starf að ólíkum þörfum barna í margbreytlegum hópi, þar á meðal þeirra barna sem þurfa á miklum stuðningi að halda.
  • Frístundastarfið verður að vera þannig skipulagt og fara þannig fram að hvert barn geti upplifað sig sem hluti af hópi og að öll börn læri að umgangast hvert annað.
  • Þátttaka í frístundastarfi færir börnum og ungmennum þekkingu sem þau geta yfirfært á samfélagið.
  • Frístundastarf án aðgreiningar, í margbreytilegum barnahópi, getur búið börn undir að takast á við krefjandi verkefni í samfélagi margbreytileikans.
  • Frístundastarf er mikilvægur vettvangur í þróun samfélags þar sem allir meðlimir geta tekið virkan og fullan þátt.

Á eftirfarandi hlekk má nálgast minnisblað sem fulltrúar Þroskahjálpar fóru yfir á fundinum og afhentu fulltrúum í starfshópnum:

lesa hér

Þroskahjálp þakkar starfshópi um gerð viðmiða um gæði frístundastarfs fyrir mjög gagnlegan fund og þann áhuga og skilning sem fulltrúar í hópnum sýndu á sjónarmiðum og áhersluatriðum sem fulltrúar samtakanna komu þar á framfæri.