Fundur Landssamtakanna Þroskahjálpar og Rauða krossins um málefni hælisleitenda og flóttafólks.
Formaður og framkvæmdastjóri Þroskahjálpar heimsóttu í morgun aðalskrifstofu Rauða krossins á Íslandi. Megintilgangur heimsóknarinnar var að fræðast um það mikilvæga starf sem Rauði krossinn á Íslandi sinnir í samstarfi við íslensk stjórnvöld við að tryggja hælisleitendum og flóttafólki á Íslandi þann stuðning og aðstoð sem það þarf svo nauðsynlega á að halda og á rétt til.
Á fundi með Atla Viðari Thorstensen, sviðsstjóra og Áshildi Linnet, verkefnastjóra, á hjálpar- og mannúðarsviði Rauða krossins á Íslandi lögðu fulltrúar Þroskahjálpar mikla áherslu á að mannréttindi hópa sem standa höllum fæti og eru berskjaldaðir fyrir mismunun og öðrum mannréttindabrotum, s.s. flóttafólks og fatlað fólks, eru samtvinnuð og fara saman en rekast alls ekki á.
Fulltrúar Þroskahjálpar greindu einnig frá því að fulltrúafundur samtakanna sem fram fór sl. haust hefði samþykkt svohljóðandi ályktun um flóttafólk og vopnuð átök:
Fulltrúafundur Landssamtakanna Þroskahjálpar hvetur stjórnvöld til að huga sérstaklega að alþjóðlegum skyldum til að taka tillit til þarfa fatlaðs fólks fyrir stuðning og vernd, við mótun og framkvæmd stefnu í málefnum flóttafólks. Stjórnvöld eru hvött til að beita sér fyrir því í fjölþjóðlegu samstarfi varðandi vanda flóttafólks, að sérstaklega verði hugað að þeirri miklu þörf fyrir vernd og stuðning sem fatlað fólk á stríðshrjáðum svæðum hefur.
Á fundinum var rætt um mikilvægi þess að huga sérstaklega að þörfum og aðstæðum fatlaðs fólks í öllu sem lýtur að meðferð mála hælisleitenda og flóttafólks, þ.m.t. kvótaflóttafólks. Fulltrúar Þrokahjálpar bentu á að sérstaklega er kveðið á um skylduna til þessa í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem íslenska ríkið fullgilti sl. haust og skuldbatt sig þar með til að framfylgja. Í samningnum er m.a. mælt fyrir um skyldur ríkja „til þess að tryggja að fatlað fólk njóti verndar og öryggis þegar hættuástand ríkir, að meðtöldum vopnuðum átökum, neyðarástandi sem kallar á mannúðaraðstoð og náttúruhamförum.“ Þá var rætt um skyldur ríkja til að tryggja að fatlað fólk fá notið réttinda til jafns við aðra, „meðal annars með því að laga málsmeðferð alla að þörfum þess“, eins og segir í samningnum og að augljóst væri að þetta ákvæði ætti við um hælisleitendur og flóttafólk og undirbúning og töku ákvarðana í málefnum þeirra.
Fulltrúar Þroskahjálpar bentu einnig á að í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks væri mælt sérstaklega fyrir um skyldu ríkja „til þess að safna viðeigandi upplýsingum, þar með talið tölfræði- og rannsóknargögn, sem gera þeim kleift að móta og innleiða stefnu samnings þessa svo að hann nái árangri“ og lögðu áherslu á mikilvægi þess að þetta væri gert hvað varðar mál hælisleitenda og flóttafólks og þ.m.t. kvótaflóttafólks. Fulltrúar Rauða krossins tóku undir mikilvægi þessa.
Fundurinn var mjög gagnlegur og var ákveðið að hafa samráð um þessi mál og skiptast á upplýsingum eftir því sem við á.
Þroskahjálp þakkar starfsfólki Rauða krossins fyrir fundinn og óskar því velfarnaðar í þeim mikilvægu störfum sem það sinnir við að tryggja að hælisleitendur og flóttafólk fái notið þeirra mannéttinda sem mælt er fyrir um í íslenskum lögum og alþjóðlegum mannréttindasamningum sem Ísland og langflest önnur ríki í heiminum hafa undirgengist.
Á myndinni eru Atli Viðar Thorstensen og Áshildur Linnet frá Rauða krossinum og Bryndís Snæbjörnsdóttir og Árni Múli Jónasson frá Þroskahjálp.