Anna Kolbrún Árnadóttir, varaþingmaður Miðflokksins, lagði fram fyrirspurn á Alþingi 2. desember sl. til Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, um biðtíma hjá Ráðgjafar- og greiningarstöðinni. Óskaði hún meðal annars eftir upplýsingum um biðtíma síðustu fimm ára og hversu mörg börn eru á biðlista.
Í skriflegu svari félags- og vinnumarkaðsráðherra sem var lagt fram á Alþingi 1. febrúar sl. kemur fram að í desember 2021 væri algengur biðtími 2-18 ára barna 11-22 mánuðir en biðtími væri mismunandi eftir alvarleika röskunar og forgangsraðað væri í greiningu eftir alvarleika einkenna. Jafnframt kom fram að biðtíminn hjá þeim sem eru í forgangi hafi styst úr 18 í 15 mánuði á árinu 2021. En betur má ef duga skal. Miklu betur. Þann 1. desember 2021 voru 326 börn á biðlista eftir greiningu sem er algjörlega óásættanlegt.
Undanfarin misseri hafa réttindi barna öðlast aukið vægi og talsverð vinna hefur farið fram hjá ríki og sveitarfélögum í þágu farsældar barna. Mörg sveitarfélög hafa einsett sér að verða barnvæn sveitarfélög og þróuð hafa verið mælaborð til að fylgjast með því markmiði. Þann 1. janúar sl. tóku gildi ný lög um samþætta þjónustu við börn og ungmenna í þágu farsældar þeirra. Á sama tíma gekk í gildi breyting á lögum um Greiningar- og ráðgjafastöð, sem eftir breytinguna kallast Ráðgjafar- og greiningarstöð. Í starfseminni er lögð er áhersla á snemmtæka íhlutun. Snemmtæk íhlutun felst í því að börn fái aðstoð og hjálp sem fyrst á lífsleiðinni, að veita viðeigandi stuðning og hefja þverfaglegt samstarf við þá aðila sem eru í nærumhverfi barnsins. Með það í huga er óboðlegt að börn þurfi að bíða eftir þverfaglegri greiningu í allt að 22 mánuði.
Mikilvægt er að leggja áherslu á að efla þjónustu Ráðgjafar- og greiningarstöðvarinnar til muna og útrýma biðlistum. Að börn og fjölskyldur þeirra þurfa að bíða í rúmlega tvö ár eftir faglegri þjónustu er eitthvað sem þarf að koma í lag því því tíminn er dýrmætur. Þessi langi biðlisti er hvorki í þágu farsældar fatlaðra barna né ásættanlegur í barnvænu samfélagi.
Hér má sjá upplýsingar um sundurliðun eftir árum.
Hér má lesa svar ráðherra við fyrirspurninni.