Samsett mynd af Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, þingmanns Viðreisnar, og Alþingi.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, bar fram mjög mikilvæga fyrirspurn til menntamálaráðherra á Alþingi í gær um tækifæri ungs, fatlaðs fólks til frekari menntunar eftir útskrift af starfsbrautum framhaldsskólanna.
Eins og Þroskahjálp hefur margítrekað bent á, og þingmenn og ráðherra staðfestu og ræddu á Alþingi í gær, hafa þeir nemendur sem útskrifast af starfsbrautum framhaldsskólanna óásættanlega fá tækifæri til áframhaldandi náms eftir útskrift. Á hverju ári útskrifast á bilinu 60 – 90 ungmenni af starfsbrautum. Tækifæri til háskólanáms að því loknu eru 16 pláss annað hvert ár í diplóma námi HÍ. Nokkrir nemendur hafa innritast í nám hjá Myndlistarskóla Reykjavíkur árlega undanfarin ár, en óljóst er um framtíð þess náms. Tónstofa Valgerðar starfrækir sértækt tónlistarnám fyrir fatlað fólk en hefur hingað til sömuleiðis skort fjármagn til að halda úti þeirri starfsemi sem þau hafa metnað til að sinna. Fjölmennt býður upp á fjölbreytt námskeið, en skortir fjármagn til þess að bjóða upp á fleiri og lengri námslínur eins og mikil eftirspurn er eftir og menntamálaráðneytið hefur daufheyrst við.
Í málefnavinnu ungmennaráðs Þroskahjálpar þegar línur voru lagðar fyrir starfið næstu árin var þessi skortur á tækifærum einmitt eitt af þeim áherslumálum sem sett voru í sérstakan forgang. Ungmennaráð ályktaði þá að menntun sé lykill að sjálfstæðu lífi og forsenda ýmissa annarra réttinda, svo sem félagslegra og menningarlegra réttindi, réttarins til þess að þroska hæfileika sína, eignast eigið heimili og búa við efnahagslegt öryggi, svo eitthvað sé nefnt.
Þessi umræða á Alþingi í gær og svör Ásnmundar Einar Daðasonar, barna- og menntamálaráðherra, vekja vonir um að úrbætur séu í undirbúningi af hálfu ráðherra og ráðuneytis hans. En eins og Björn Leví Gunnarsson, þingmaður benti á, er mikilvægt að orðum og áformum fylgi fjármagn til framkvæmda. Landssamtökin Þroskahjálp og ungmennaráð Þroskahjálpar hafa talað hátt fyrir þessum breytingum og hvetja stjórnvöld eindregið til þess að tryggja fjármagn svo af þeim geti orðið svo fljótt sem auðið er.
Fylgjast má með og lesa þessar umræður á Alþingi hér.