„Skiptir gríðarlega miklu máli að við séum vakandi og meðvituð um vandann“

Skýrsla Velferðaráðuneytisins
Skýrsla Velferðaráðuneytisins
„Það er engin einföld leið til að koma í veg fyrir ofbeldi, það skiptir gríðarlega miklu máli að við séum vakandi og meðvituð um vandann.“ segir Gerður Árnadóttir, formaður Þroskahjálpar eftir að útkomu eigindlegrar rannsóknar á ofbeldi gegn fötluðum konum sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann fyrir Velferðarráðuneytið.

Niðurstöður nýrrar eigindlegrar rannsóknar á ofbeldi gegn fötluðum konum sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann fyrir velferðarráðuneytið veita mikilvæga innsýn í margbreytilegar birtingarmyndir ofbeldis gegn fötluðum konum, við hvers konar aðstæður það á sér stað og afleiðingarnar sem það hefur.

„Við hjá Þroskahjálp höfum áhyggjur af þessu og unnið í samvinnu við Fjölmennt og Ás Styrktarfélag í kennsluefni, bækling sem tengist kynferðisofbeldi ætluðum ungu fólki með þroskahömlun,“ segir Gerður. „Bæklingurinn útskýrir hvað kynferðisofbeldi er og fjallar um varnir gegn því.“ Hún leggur áherslu á að fræðsla til ungs fatlaðs fólk og fatlaðs fólks almennt skipti mjög miklu máli. Þá sé einnig mikilvægt að vinna með sjálfseflingu fólks og gæta þess að það sé meðvitað um rétt sinn.

Rannsóknin var hluti af verkefni sem tilheyrir þingsályktun um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum. Byggt var á viðtölum við þrettán konur sem allar hafa orðið fyrir margháttuðu ofbeldi í æsku og á fullorðinsárum. Markmiðið var að gera grein fyrir eðli ofbeldis gegn fötluðum konum og fjalla um muninn á því ofbeldi sem einstaklingar beita fatlaðar konur annars vegar og stofnanabundnu ofbeldi hins vegar. Einnig að gera grein fyrir því við hvers konar aðstæður ofbeldið á sér stað, afleiðingunum sem það hefur, hvernig staða fatlaðra kvenna í samfélaginu tengist hættunni á því að þær verði fyrir ofbeldi og loks að setja fram tillögur um hvernig fyrirbyggja megi ofbeldi gegn fötluðum konum.

Skýrsluhöfundar taka fram að sögur kvennanna eru ekki endilega dæmigerðar fyrir líf fatlaðra kvenna almennt. Því sé mikilvægt að samtímis sem lærdómur sé dreginn af reynslu kvennanna sé brýnt að varpa ekki rýrð á það sem vel er gert í starfi með fötluðu fólki.