Mannréttindi eru tiltekin lagaleg réttindi sem er viðurkennt að eru öllu fólki svo mikilvæg að þjóðir heims hafa komið sér saman um að öll ríki verði að gera það sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að allir fái notið þessara réttinda, alltaf og alls staðar og án mismununar.
Grundvallarmannréttindi eru skilgreind í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1948 og skýrð og útfærð í mannréttindasamningum sem ríki heims hafa fullgilt og þar með skuldbundið sig til að virða og framfylgja. Dæmi um mikilvæg mannréttindi eru rétturinn til að njóta frelsis, hafa skoðanir og tjá þær, stunda nám og atvinnu og hafa aðgang að heilsugæslu, geta eignast heimili og notið einkalífs og til að fá njóta þessara mannréttinda og annarra lagalegra réttinda til jafns við aðra en fá ekki verri tækifæri til þess vegna tiltekinna einkenna eða stöðu, s.s. kynþáttar, kynferðis, trúarbragða eða fötlunar.
Stundum er talað um borgaraleg og stjórnmálaleg mannréttindi og efnhagsleg og félagsleg mannréttindi. Öll þessi mannréttindi, stjórnmálaleg, borgaraleg, efnahagsleg og félagsleg eru samtengd og hvert öðrum háð. Ef lágmarksþörfum einstaklings til framfærslu er t.a.m. ekki fullnægt er augljóst að að tækifæri hans til að nýta tjáningarfelsi sitt eru mjög mikið skertir og ef einstaklingur fær ekki tækifæri til að eignast heimili er augljóst að möguleikar hans til einkalífs eru afar takmarkaðir og svona mætti lengi telja. Efnahagsleg og félagsleg mannréttindi og borgaraleg og stjórnmálaleg mannréttindi eru því ein órjúfanleg heild.
Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem íslenska ríkið fullgilti á síðasta ári og skuldbatt sig þar með til að virða og framfylgja, eins og nær öll ríki í heiminum hafa gert, er sérstaklega áréttað að fatlað fólk skuli njóta margvíslegra mannréttinda til jafns við aðra, borgara- og stjórnmálalegra, efnahags- og félagslegra og hvað stjórnvöldum er skylt að gera til að tryggja það.
Það er því mikið áhyggjuefni fyrir fatlað fólk og alla sem telja að þau lágmarksréttindi og tækifæri sem mannréttindum er ætlað að tryggja öllu fólki, alltaf og alls staðar, eigi að vera grundvöllur samfélags okkar, að Hæstiréttur Íslands og þar með almennir dómstólar sem styðjast við fordæmi hans, skuli veita mannréttindum fatlaðs fólks eins litla vernd og raun ber vitni. Niðurstöður Hæstaréttar í nýlegum málum þar sem reynt hefur á mannréttindi fatlaðs fólks, s.s. í málum Salbjargar Óskar Atladóttur og Benedikts Hákonar Bjarnasonar gegn Reykjavíkurbor og nú síðast í máli Áslaugar Ýrar Hjartardóttur gegn íslenska ríkinu sýna þetta svo ekki verður um villst. Þessi dómaframkvæmd Hæstaréttar og hvað hún þýðir fyrir mannréttindi á Íslandi er rakið skýrt og skilmerkilega í grein Kára Hólmars Ragnarssonar, lögmanns og doktorsnema í lögum við Harvardskóla, sem birtist í 1. tbl. Úlfljóts, tímarits laganema, á þessu ári. Grein Kára ber yfirskriftina Falsvonir Öryrkjabandalagsdómsins – nýleg dómaframkvæmd um félagsleg réttindi. Óhætt er að hvetja allt áhugafólk um samfélagsmál, mannréttindi og hagsmuni fatlaðs fólks til að lesa þess grein og hana má nálgast hér
Þessi dómaframkvæmd Hæstaréttar hlýtur að vekja mikil vonbrigði og áhyggjur hjá öllu áhugafólki um vernd og framgang mannréttinda. En það tjóir ekki að deila við dómarann. Það er hins vegar á valdi Alþingis og á ábyrgð þess að bregðast við þessu með þeim eina hætti sem dugir, þ.e.a.s. með því að veita mannréttindum fatlaðs fólks meiri og skýrari vernd í þeim lögum sem Alþingi setur og dómstólar dæma eftir. Og til að tryggja fötluðu fólki þau mannréttindi sem það þarf svo mikið á að halda og á rétt á og stjórnvöldum er skylt að gera samkvæmt fjölþjóðlegum samningum sem Ísland hefur undirgengist og sérstaklega er áréttað í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks, hefur Alþingi og ríkisstjórnin það á valdi sínu að breyta lögum, taka samninginn í íslensk lög svo skjótt sem verða má og fullgilda valkvæða viðaukann við hann strax.
Valkvæði viðaukinn mælir fyrir um kæruleið fyrir einstaklinga og hópa sem telja að íslensk stjórnvöld hafi ekki veitt þeim þann rétt sem þeim ber samkvæmt samningnum og hafa árangurslaust nýtt þau úrræði sem þeir hafa samkvæmt íslenskum lögum og stjórn- og dómskerfi til að ná því fram sem þeir telja sig eiga rétt á samkvæmt samningnum. Eftirlitsnefndin getur óskað upplýsinga frá ríkjum og beint tilmælum til þeirra. Með því að fullgilda valkvæða viðaukann verður virkara aðhald með ríkjum um að framfylgja samningnum, réttaröryggi fatlaðs fólks meira og mannréttindi þess betur varin. Þess má geta að yfir 90 ríki hafa nú þegar fullgilt viðaukann
Alþingi samþykkti á síðasta ári þingsályktun um að íslenska ríkið skyldi fullgilda valkvæða viðaukann fyrir árslok 2017. Við þá ályktun verður að standa.