Halli heiðraður.
Landssamtökin Þroskahjálp afhentu fyrr í dag Harald Ólafssyni gjöf að fjárhæð kr. 500 þúsund sem viðurkenningar- og þakklætisvott fyrir ómetanlegt framlag hans til heimildarmyndarinnar Halli sigurvegari og við að vekja athygli á stöðu fatlaðs fólks, réttindum þess, hæfileikum og tækifærum í fortíð, nútíð og framtíð.
Samtökin hvetja Harald til að nýta þessar krónur til að smíða rafmagnshjól eða til einhvers annars sem hugur hans og marvíslegir hæfileikar standa til.
Þroskahjálp lét gera heimildarmyndina Halli sigurvegari. Lífssaga fatlaðs manns. Þar segir frá lífshlaupi mjög áhugaverðs manns, Haraldar Ólafssonar (Halla), sem var vistaður sem barn á Kópavogshæli og dvaldist þar fram á fullorðinsár. Myndin lýsir á áhrifamikinn hátt fordómum og órétti, hugrekki, þrautseigju og vináttu. Haraldur hefur m.a. vakið athygli fyrir viðtöl sem nýlega hafa birst þar sem hann lýsir lífi sínu og annarra barna á Kópavogshæli.
Halli hefur mörg undanfarin ár unnið að ýmsum verkefnum sem varða rafmagn og það nýjasta er smíði á rafmagnshjóli sem hann vinnur nú að í samvinnu við Gísla Sigurgeirsson rafeindavirkja o.fl.
Páll Kristinn Pálsson gerði heimildarmyndina Halli sigurvegari. Lífssaga fatlaðs manns.
Myndin um Halla sigurvegara verður sýnd á RÚV þriðjudaginn 7. mars nk.
Ekki missa af henni!