Heimili – meira en hús.

Ráðstefnugestir Heimili - meira en hús
Ráðstefnugestir Heimili - meira en hús
Föstudaginn 1. mars stóðu Landssamtökin Þroskahjálp að ráðstefnu í samstarfi við Þroskaþjálfafélag Íslands, Rannsóknasetur í Þroskaþjálfafræðum, Samtök Íslenskra sveitarfélaga og Félagsráðgjafafélagið. Ráðstefnan bar yfirskriftina Heimili– meira en hús. Um 350 manns sóttu ráðstefnuna og var góð umræða úr sal um umfjöllunarefni fyrirlesara.

Meðal fyrirlesara á ráðstefnunni voru Sigrún Broddadóttir sem  fjallaði um niðurstöður úr meistaraprófsritgerð sinni „Að flytja úr foreldrahúsum“ , Guðný Jónsdóttir sjúkraþjálfari sagði frá meistaraprófsverkefni sínu „Við gerum eins og við getum“ þar sem hún fjallaði á mjög opinn hátt um reynslu starfsfólks í starfi með fötluðu fólki. Felix Högnason þroskaþjálfi og Jarþrúður Þórhallsdóttir fjölluðu um hvert væri hlutverk fagfólks í þjónustu við fatlað fólk á heimilum sínum.

Undir liðnum Rekstur heimila – litlar einingar eða hagræði stærðarinnar voru sýn þroskaþjálfa og rekstraraðila rædd, það voru þær Sigríður Kristjánsdóttir þroskaþjálfi og Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir verkefnisstjóri sem reifuðu sína sýn. Gerður A. Árnadóttir formaður Þroskahjálpar fjallaði um Sjálfstætt líf – meira en NPA?

Diplómanemar frá HÍ þau Dagný Kristjánsdóttir, Þórný Helga Sævarsdóttir, Unnur Aníta Pálsdóttir og Ólafur Snævar Aðalsteinsson voru raddir ungs fólks um væntingar til framtíðarheimilis. Lára Björnsdóttir endaði svo ráðstefnuna með því að bera hana saman við ráðstefnu sem haldin var fyrir 20 árum og tók út þá þætti sem rætt var um, ýmislegt hefur áunnist en margt þarf þó enn að bæta, nefni hún m.a. virðingu og viðhorf sem alltaf þyrfti að brýna – fatlað fólk vill að því sé sýnd virðing ekki velvild.