LANDSSAMTÖKIN ÞROSKAHJÁLP FJÖRUTÍU ÁRA.
Landssamtökin Þroskahjálp voru stofnuð árið 1976 og verða því fjörutíu ára á þessu ári. Með stofnun þeirra nýttist betur samtakamáttur ýmissa félaga sem öll hafa það markmið að berjast fyrir réttindum og vinna að málefnum fólks með þroskahömlun sem og annarra fatlaðra, barna og fullorðinna og tryggja þeim fulla jafnréttisstöðu á við aðra þjóðfélagsþegna, eins og segir í lögum samtakanna.
Samtökin leggja sérstaka áherslu á að vera öflugur málsvari fólks með þroskahömlun og fatlaðra barna, styðja þau til að styrkja sjálfsmyndina, láta rödd sína heyrast og standa sjálf vörð um hagsmuni sína og réttindi.
Starf og stefna Landssamtakanna Þroskahjálpar grundvallast á viðurkenndum mannréttindum sem áréttuð eru í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Sérstök áhersluatriði í stefnuskrá samtakanna eru þessi:
- Virða ber manngildi, grunnþarfir og rétt allra manna.
- Fósturskimun skal beitt í þjónustu lífsins.
- Allir eiga rétt til að hafa áhrif á eigið líf og taka eigin ákvarðanir.
- Allir, sem þess þurfa, eiga rétt á stuðningi sem tekur mið af þörfum þeirra svo að þeir geti notið jafnra tækifæra á við aðra í samfélaginu.
- Allir eiga rétt á menntun við hæfi og án aðgreiningar.
- Allir eiga rétt á eigin heimili.
- Allt fullorðið fólk á rétt á að stofna fjölskyldu.
- Allt fullorðið fólk á rétt á vinnu.
- Allir eiga rétt á að njóta efnalegs öryggis.
- Allir eiga rétt á að njóta menningar og frístunda.
- Allir eiga rétt á að njóta efri ára með reisn.
Aðild að Landssamtökunum Þroskahjálp eiga nú rúmlega tuttugu félög; félag fólks með þroskahömlun, foreldra- og styrktarfélög, landshlutafélög Þroskahjálpar svo og fagfélög fólks sem hefur sérhæft sig í þjónustu við fatlað fólk. Þessi félög eru starfrækt víða á landinu og eru félagsmenn þeirra um sex þúsund talsins.
Þau félög geta verið aðilar að samtökunum sem vinna að markmiðum þeirra og í samræmi við stefnuskrá og lög samtakanna en aðildarfélög lúta ekki boðvaldi samtakanna eða stjórnar þeirra heldur velja félögin sér eigin stjórnarmenn samkvæmt reglum sem þau setja sér.
Landssamtökin Þroskahjálp eru með heimasíðu (www.throskahjalp.is) og á facebook og gefa auk þess út tímaritið Þroskahjálp þrisvar sinnum á ári. Á þessum miðlum má finna miklar og margvíslegar upplýsingar um baráttumál samtakanna og hagsmunamál og mannréttindi fatlaðs fólks. Þá reka samtökin húsbyggingasjóð til greiða fyrir möguleikum fatlaðs fólks til að fá hentugt húsnæði og þar með betri möguleika til sjálfstæðs og eðlilegs lífs.
Á þeim fjörutíu árum sem liðin eru frá stofnun Landssamtakanna Þroskahjálpar hefur ýmislegt áunnist í réttindabaráttu fatlaðs fólks. Mikið verk er þó óunnið. Samtökin hafa náð virðulegum aldri en eru þó ung í anda og búa ekki einungis yfir mikilli reynslu og þekkingu heldur einnig eldmóði, kjarki og krafti. Landssamtökin Þroskahjálp munu því áfram verða í fararbroddi í baráttunni fyrir mannréttindum fatlaðs fólks, jöfnum tækifærum og auknum lífsgæðum.
Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar.
Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálpar.