Bryndís Snæbjörnsdóttir og Gerður A. Árnadóttir
Landsþingi Landssamtakanna Þroskahjálpar er ný lokið. Á fundinum var Bryndís Snæbjörnsdóttir kjörin nýr formaður samtakanna, en hún hefur starfað sem varaformaður undarfarin ár. Á fundinum voru einnig samþykktar ályktanir sem snúa að ýmsum þáttum málaflokks fatlaðs fólks.
Landsþingi Landssamtakanna Þroskahjálpar er ný lokið. Á fundinum var Bryndís Snæbjörnsdóttir kjörin
nýr formaður samtakanna, en hún hefur starfað sem varaformaður undarfarin ár. Á fundinum voru einnig kjörnir í aðalstjórn,
Ólöf Bolladóttir, Hrönn Kristjánsdóttir, Sif Sigurðardóttir Gunnhildur Hafsteinsdóttir og Þuríður Sigurðardóttir.
Aðrir í stjórn samtakana eru Guðrún Þórðardóttir, Jón Ari Ingólfsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Vibeke
Þorbjörnsdóttir, Sighvatur Blöndahl, Skúli Steinar Pétursson og Árdís Aðalsteinsdóttir. Einnig var kosin stjórn
húsbyggingarsjóðs sem sér um húseignir sem samtökin leigja út.
Á fundinum voru einnig samþykktar ályktanir sem snúa að ýmsum þáttum málaflokks fatlaðs fólks.
LSH - Kópavogi
Landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar fagnar samningi Áss styrktarfélags og Landspítalans um að Ás styrktarfélag taki að sér
þjónustu við þá fötluðu íbúa sem búa á deildum 18 og 20 á LSH, áður Kópavogshæli og þeim
breytingum sem samningurinn hefur á líf þeirra. Með samningnum lýkur endanlega búsetu fatlaðs fólks á sjúkrastofnunum.
Greinargerð:
Landssamtökin Þroskahjálp hafa barist fyrir því að fatlaðir íbúar á LSH Kópavogi fái notið þeirra
réttarbóta sem lagabreytingar undanfarinna ára hafa tryggt fötluðu fólki. Við umrætt samkomulag munu íbúarnir fá
lögheimili í sínu sveitarfélagi og öðlast þannig full borgaraleg réttindi. Þá felur samkomulagið í sér að
starfsemin fellur undir lög um málefni fatlaðs fólks með þeim réttarbótum sem í því felast. Þá liggur fyrir
bókun Velferðarráðuneytisins þess efnis að strax verði unnið að því að þeir einstaklingar sem um ræðir flytjist úr
húsnæði LSH í framtíðarhúsnæði. Samtökin fagna þessu samkomulagi og þeim mikilvægu breytingum sem í
því felast fyrir umrædda íbúa. Með því lýkur endanlega búsetu fatlaðs fólks á sjúkrastofnunum.
Atvinna
Landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar ítrekar fyrri ályktanir sínar þess efnis að líta beri á atvinnumál fatlaðs
fólks á sama hátt og atvinnumál almennt. Því sé eðlilegt að þessi málaflokkur heyri undir Vinnumálastofnun í
samræmi við gildandi lög. Skorað er á ráðherra atvinnumála að skera úr um í því ágreiningsefni sem uppi
er hið fyrsta enda fylgir óbreyttri stöðu stöðnun og úrræðaleysi sem ekki er ásættanlegt.
Greinargerð:
Við yfirfærsluna 2011 fluttist fjármagn til atvinnumála fatlaðs fólks tímabundið yfir til sveitarfélaga landsins. Meirihluti nefndar sem
vann að framtíðarfyrirkomulagi þessa málasviðs komst að þeirri niðurstöðu að eðlilegt væri að atvinnumál fatlaðs
fólk vistuðust hjá Vinnumálastofnun á sama hátt og atvinnumál almennt. Fulltrúi sveitarfélaga stóð ekki að
þeirri tillögu og afstaða þeirra hefur hindrað framgöngu málsins. Ráðherra atvinnumála var falið að úrskurða um
framtíðarskipan málaflokksins en hefur ekki enn gert það. Afleiðingin hefur orðið stöðnun og úrræðaleysi í atvinnumálum
þessa hóps.
Greiðslur almannatrygginga.
Landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar skorar á stjórnvöld að tryggja sérstaklega framfærslu þess hóps fatlaðs
fólks sem ekki hefur aðrar tekjur en greiðslur almannatrygginga. Landssamtökin Þroskahjálp styðja heildarendurskoðun laga um almannatryggingar og
félagslega aðstoð með það að markmiði að gera tryggingakerfið einfaldara og réttlátara.
Búseta
Landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar skorar á sveitarfélög landsins að hraða uppbyggingu á þjónustu við fatlað fólk
á heimilum sínum. Brýnt er að jafnvægi verði náð varðandi húsnæðistilboð til að útrýma biðlistum.
Landsþingið minnir á tilmæli Ríkisendurskoðunar til Alþingis um að „mótaðar verði reglur um hámarksbiðtíma eftir
þjónustu og fyrir liggi upplýsingar um lengd biðtíma hjá öllum þjónustuaðilum.“ Þá leggja samtökin áherslu
á að innihald þjónustunnar sé í samræmi við hugmyndafræðina um Sjálfstætt líf og samning SÞ um réttindi
fatlaðs fólks.
Þjónusta við fötluð börn og fjölskyldur þeirra.
Fötluð börn og fjölskyldur þeirra eru eðlilegur hluti af margbreytilegu samfélagi. Sveitarfélög landsins eru hvött til að leita
fjölbreyttra leiða við þróun þjónustu við ólíka einstaklinga og fjölskyldur í samræmi við þarfir
fjölskyldnanna með það að markmiði að þær geti lifað eðlilegu lífi á mismunandi skeiðum lífsins.
Félagsþjónusta við fatlað fólk
Landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar áréttar að þjónusta við margt fatlað fólk tekur til allra þátta lífsins
ævilangt. Þjónustan þarf því að vera einstaklingsbundin og samræmd og taka mið af aðstæðum einstaklingsins á hverjum
tíma. Brýnt er að sveitarfélög landsins geri markvissar áætlanir um uppbyggingu þjónustunnar í samvinnu við
notendur. Auka þarf skilvirkni í vinnulagi og færa ákvarðanatöku um nauðsynleg þjónustuúrræði nær
notandanum. Samtökin árétta mikilvægi samskipunar í samfélaginu og að sveitarfélög landsins tileinki sér hugmyndafræðina um
Sjálfstætt líf.
Aðgengi
Landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar fagnar aukinni umræðu um aðgengi fatlaðs fólks að samfélaginu. Mikilvægt er að hafa í
huga að aðgengi nær jafnt til aðgengis að mannvirkjum, upplýsingum og farartækjum. Því þarf að huga að upplýsingum á
auðskildu máli, merkingum mannvirkja og öðrum þeim þáttum sem gera samfélagið aðgengilegra ólíkum einstaklingum.
Tilraunaverkefni um NPA
Landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar fagnar því að tilraunaverkefni um NPA hefur hafið göngu sína. Samtökin árétta
mikilvægi þess að NPA sé valkostur fyrir allt fatlað fólk óháð skerðingum. Samtökin lýsa yfir undrun sinni á
því sjónarmiði á NPA sem lýst var á nýlegri ráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga og
félagsmálastjóra, að NPA verkefnið eigi ekki að ná til fólks með þroskahömlun eða foreldra fatlaðra barna. Þá
hvetja samtökin til þess að hafist verði handa um lagasetningu um NPA í samræmi við ákvæði til bráðabirgða í lögum um
málefni fatlaðs fólks.
Greinargerð:
NPA verkefnið er hluti af þjónustu skv. lögum um málefni fatlaðs fólks. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands er fólk
með þroskahömlun og einhverfu ásamt foreldrum fatlaðra barna 63% allra sem fá þjónustu skv. þeim lögum. Það
sjónarmið á NPA sem fram kom á nýlegri ráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga og félagsmálastjóra, að NPA
verkefnið eigi ekki að ná til fólks með þroskahömlun eða foreldra fatlaðra barna, er í andstöðu við markmið NPA
tilraunaverkefnisins þar sem lögð er áhersla á mikilvægi þess að allt fatlað fólk eigi kost á slíkri þjónustu
óháð skerðingum. Þá felur slíkt sjónarmið í sér mismunun og er óviðunandi í nútíma samfélagi
þar sem áhersla er lögð á mannréttindi, samfélagsþátttöku og samskipan fatlaðs fólks og ófatlaðs.
---
Samþykkt á landsþingi Landssamtakanna Þroskahjálpar laugardaginn 12. október 2013 og birt með fyrirvara um orðalagsbreytingar.