AUÐLESIÐ — ýttu hér til að lesa
María Hreiðarsdóttir er dáin. Hún var 51 árs.
María var merkileg baráttu kona sem barðist fyrir fatlað fólk.
Hún barðist til dæmis fyrir því að fólk með þroskahömlun ætti sama rétt og aðrir til að eignast börn og fá borgað fyrir vinnuna sína.
María var einu sinni formaður Átaks - félag fólks með þroskahömlun.
María var einu sinni í stjórn Þroskahjálpar og vann hjá Þroskahjálp á tímabili.
María skrifaði bók um líf sitt sem heitir Ég lifði í þögninni.
Hún skrifaði líka bók um hvernig starfsfólk á að styðja við seinfæra foreldra.
María átti son sem heitir Ottó Bjarki.
Við sendum samúðarkveðjur til fjölskyldu og vina Maríu.
Það er hægt að styrkja son Maríu með því að kaupa bókina hennar Maríu í vefverslun hjá Þroskahjálp.
María Þ. Hreiðarsdóttir, baráttukona, fyrrverandi formaður og heiðursfélagi í Átaki - félagi fólks með þroskahömlun, er látin aðeins 51 árs að aldri.
María var einn af stofnfélögum Átaks og sat í fyrstu stjórn félagsins sem ritari á árunum 1993 til 1995. Þá var María formaður Átaks í 6 ár, eða til ársins 2001. María sat einnig í stjórn Landssamtakanna Þroskahjálpar, starfaði á skrifstofu samtakanna og var ötull talsmaður þess að samtökin gættu þess í öllu sínu starfi að raddir fólks með þroskahömlun væru í forgrunni.
María var brautryðjandi í baráttu fatlaðs fólks, m.a. fyrir rétti fólks með þroskahömlun til að halda frjósemi sinni og stofna fjölskyldu, og skrifaði árið 2021 fræðslurit ásamt Sigríði Elínu Leifsdóttur, um stuðning við seinfæra foreldra. Þá barðist hún ötullega fyrir því að laun fatlaðs fólks í verndaðri vinnu væru sambærileg launum annarra. María hélt marga fyrirlestra bæði á Íslandi og erlendis sem vöktu mikla athygli og skrifaði einnig blaðagreinar um baráttumál fólks með þroskahömlun. Þá var María einn af sendiherrum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Árið 2017 gaf María út lífssögu sína sem bar titillinn Ég lifði í þögninni, í samvinnu við Guðrúnu V. Stefánsdóttur og hlaut Múrbrjót Þroskahjálpar fyrir. Í inngangi bókarinnar skrifar María:
Ég hef oft spurt sjálfa mig hver ég er. Ég er með skerðingu en skerðingin er ekki ég.
Ég er dóttir foreldra minna, ég er systir systkina minna og frænka barna þeirra.
Ég er líka móðir Ottós Bjarka og vinur vina minna. Þá er ég ekki síst mikil baráttukona.
María eignaðist son sinn Ottó Bjarka árið 2002 og hófst þá nýtt tímabil í lífi hennar. María ræktaði móðurhluverkið af mikilli alúð og má segja að velferð Ottós hafi átt hug hennar allan, samt sem áður hélt hún áfram baráttu sinn fyrir auknum réttindum og betra lífi fólks með þroskahömlun, m.a með þátttöku í Tabú - femínískri fötlunarhreyfingu. María sótti einnig fundi Átaks og hvatti þar fólk til að halda baráttunni áfram.
Stjórn og starfsfólk Landssamtakanna Þroskahjálpar vottar Ottó Bjarka, foreldrum Maríu og öðrum aðstandendum og vinum samúð sína.
Samtökin hafa sett lífssögu Maríu aftur í sölu, og mun allur ágóði renna óskiptur til Ottós Bjarka, sonar Maríu. Einnig er hægt að styrkja Ottó, án þess að fá bókina. Smelltu hér til að kaupa bókina / styrkja.