Nýtt gistiheimili Þroskahjálpar

AUÐLESIÐ

  • Þroskahjálp hefur boðið fötluðu fólki og fjölskyldum upp á gistingu í Melgerði 7.
  • Melgerði 7 er orðið gamalt og margt sem þarf að laga.
  • Þroskahjálp ákvað því að selja Melgerði.
  • Verið er að leita að nýju húsi.
  • Við munum bjóða upp á gistingu aftur þegar keypt hefur verið nýtt hús.

Þroskahjálp hefur um árabil rekið gistiheimili í Melgerði 7, þar sem fatlaðir einstaklingar af landsbyggðinni og aðstandendur þeirra hafa getað gist, endurgjaldslaust, þegar sækja þarf þjónustu í höfuðborgina. Töluverð eftirspurn hefur verið eftir þessari þjónustu, enda ekki um mörg önnur ódýr úrræði að ræða.

Húsið og innbú þess var hinsvegar komið mjög til ára sinna og ljóst að komið væri að töluverðu viðhaldi. Því ákvað stjórn Þroskahjálpar nú í vor að setja húsið á sölu og hefur það nú gengið eftir, og húsið verið selt.

Þroskahjálp hefur fengið styrk frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til að reka gistiheimilið í Melgerði, og vilyrði hefur fengist til að halda þessari þjónustu áfram. Skrifstofa Þroskahjálpar er því núna á fullu að leita að nýju húsnæði til að reka gistiheimili áfram.

Við getum því ekki boðið upp á gistingu næstu vikur, en innan tíðar opnar aftur nýtt Melgerði, og fötluðu fólki og aðstandendum þess mun þá aftur bjóðast þessi þjónusta.

Við þökkum Melgerði fyrir allt og hlökkum til að bjóða upp á nýtt og betra húsnæði í náinni framtíð.