Grein þessi birtist í tímaritinu Þroskahjálp í desember 2016
Menntun án aðgreiningar.
Leiðbeiningar eftirlitsnefndar með samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Í 24. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er fjallað um rétt fatlaðs fólks til menntunar til jafns við aðra. Það er alls ekki að ástæðulausu að sérstaklega og ítarlega er þar kveðið á um þennan rétt því að fötluðum börnum og ungmennum og fullorðnum líka hefur ávallt verið og er enn neitað um þann rétt meira og minna hvarvetna í heiminum. Réttur til menntunar án mismunar er mannréttindi sem eru viðurkennd og varin, ekki aðeins í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, heldur í mörgum öðrum mannréttindasamningum sem Ísland hefur skuldbundið sig til að virða og framfylgja eins og flest öll ríki í heiminum.
Eftirlitsnefnd með samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hefur m.a. það mikilvæga hlutverk að gefa ríkjum leiðbeiningar (e. General Comments) um túlkun á einstökum greinum samningsins og skýra hvernig þau geta staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt þeim. Eftirlitsnefndin sendi nýlega frá sér leiðbeiningar um túlkun og framkvæmd ákvæða 24. gr. samningsins sem fjallar sem fyrr sagði um menntun og rétt fatlaðs fólks til að fá tækifæri til að njóta hennar eins og aðrir og hvað ríki þurfa að gera til að sá réttur verði að veruleika.
Í leiðbeiningum eftirlitsnefndarinnar er lögð áhersla á „að aðeins menntun án aðgreiningar getur tryggt gæðamenntun og félagslega þróun og þátttöku fatlaðs fólks sem og tækifæri til menntunar fyrir alla, án mismununar.“
Eftirlitsnefndin bendir einnig á að fólk með þroskahömlun er sérstaklega berskjaldað fyrir mismunun hvað varðar menntun og að tækifæri til að vera í almennum bekkjum með jafnöldrum sínum. Það er afar mikilvægur þáttur til að tryggja að fatlað fólk og ekki síst börn og ungmenni með þroskahömlun fái að njóta annarra réttinda sem samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks mælir fyrir um, s.s. réttarins til að lifa og taka þátt í samfélaginu án aðgreiningar og til jafns við aðra.
Þessar leiðbeiningar eftirlitsnefndar með samningi SÞ varðandi menntun eru afar mikilvægar og er mjög nauðsynlegt að íslensk menntayfirvöld og önnur hlutaðeigandi stjórn- og skólayfirvöld kynni sér þær mjög vel og gæti þess að lög og reglur og öll stefnumótun í menntunar- og skólamálum og öll framkvæmd á því sviði taki mið af ákvæðum 24. gr. samningsins og leiðbeiningum eftirlitsnefndarinnar varðandi hana.
Leðbeiningar eftirlitsnefndarinnar varðandi menntun má nálgst á þessum hlekk á heimasíðu nefndarinnar, vinstra megin undir „General Comments“:
http://www.ohchr.org/EN/HRBodies/CRPD/Pages/CRPDIndex.aspx
Árni Múli Jónasson
framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálpar.