Merkur dagur á Alþingi

Þann 11. júní voru samþykkt á Alþingi tvenn lög og ein þingsályktun sem fjalla um málefni fatlaðs fólks. Það má því segja að þessi dagur hafi verið viðburðaríkur og vonandi færir okkur heim sannindin um að þrátt fyrir mótlæti á stundum, gerast einnig atburðir sem leiða til framfara og bæta stöðu fatlaðs fólks.

Ný lög um aðgerðir til að draga úr beitingu nauðungar í þjónustu við fatlað fólk.

Við setningu laganna er loksins orðið við kröfu Landssamtakanna Þroskahjálpar hvað þetta mál varðar, en samtökin hafa allt frá árinu 1992 haft það á stefnuskrá sinni að slíkt ákvæði væri sett í lög.
Sannarlega þarf að halda baráttunni áfram því lögsetning er eitt en innleiðing laga er annað.
Lög þessi eru breyting á lögum um réttindagæslu fatlaðs fólks nr 88/2011. og er að finna á þingskjali 1503.

Tillaga til Þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014.

Við þá yfirfærslu á þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga lögðu Landssamtökin Þroskahjálp áherslu á að áfram væri unnið sameiginlega að því að móta stefnu til skemmri og lengri tíma.
Umrædd tillaga skiptist í 8 málasvið og innan hvers svið eru síðan nokkur verkefni með skilgreindum markmiðum og ábyrgðaraðilum.
Málasviðin eru: Aðgengi, atvinna, félagsleg vernd/sjálfstætt líf, heilbrigði, ímynd og fræðsla, jafnrétti, menntun, þátttaka.
Það er ljóst að mikið starf er framunda að hrinda í framkvæmd mörgum þeim aðgerðum og áætlunum sem tilgreind eru í þingsályktuninni. Þingsályktunina er að finna á vef Alþingis á þskj. 1496.

Lög um breytingu á lögum um háskóla.

Með lögunum eru ákvæði sem er að finna í 24 gr. samnings Sameinu þjóðanna um menntun og snerta háskóla, lögfest.
Þar með er undirstrikað að fatlað fólk á fullan rétt til að stunda nám á háskólastigi til jafns við aðra.
Lögin er að finna á vef Alþingis á þskj. 1502