Múrbrjótar Þroskahjálpar 2024 verðlaunaðir

Verðlaunahafar Múrbrjótsins 2024, ásamt Forseta Íslands og formanni Þroskahjálpar. 
Frá vinstri: Ha…
Verðlaunahafar Múrbrjótsins 2024, ásamt Forseta Íslands og formanni Þroskahjálpar.
Frá vinstri: Haukur Guðmundsson, Aileen Soffía Svensdóttir, Halla Tómasdóttir, Unnur Helga Óttarssdóttir og Magnús Orri Arnarsson.
Mynd:Víðir Björnsson

Múrbrjótur Landssamtakanna Þroskahjálpar var afhentur á alþjóðadegi fatlaðs fólks sem haldinn var hátíðlegur um allan heim í gær, 3. desember.

Múrbrjótar ársins 2024 eru annarsvegar Magnús Orri Arnarsson fyrir merkisárangur í starfi og í verkefnum framleiðslufyrirtækis síns MOA Production og hinsvegar Haukur  Guðmundsson og Aileen Soffía Svensdóttir fyrir hlaðvarpsþættina Mannréttindi fatlaðra sem eru um réttindabaráttu fatlaðs fólks og mikilvægi inngildingar í samfélaginu.

Forseti Íslands Halla Tómasdóttir afhenti Múrbrjótana við hátíðlega athöfn.

 

3. des er alþjóðadagur fatlaðs fólk og er haldinn hátíðlegur ár hvert víða um heim.
Meginstef dagsins í ár er: Efld forysta fatlaðs fólks til inngildingar og sjálfbærrar framtíðar.
Landssamtökin Þroskahjálp hafa veitt viðurkenningu sína, Múrbrjótinn, á þessum degi um árabil til fólks og verkefna sem að mati samtakanna hafa brotið niður múra í réttindamálum og viðhorfum til fatlaðs fólks og stuðla þannig að því að það fái tækifæri til að vera fullgildir þátttakendur í samfélaginu og til að lifa eðlilegu lífi til jafns við aðra.

 

Blásið var til hátíðarsamkomu í gær til að afhenda Múrbrjótsviðurkenninguna.

Jón Hlöðver Loftsson, Runólfur Sæmundsson og Soffía Þorkelsdóttir tónlistarnemendur hjá Fjölmennt, Símenntunarstöð léku á píanó.

Halla Tómasdóttir, Forseti Íslands, sem nú á annasama daga vegna nýafstaðinna Alþingiskosninga og ríkisstjórnarmyndunar, gaf sér engu að síður tíma til að veita verðlaunin.

Viðurkenningargripirnir, Múrbrjótarnir, eru smíðaðir á handverkstæðinu Ásgarði þar sem fólk með þroskahömlun starfar.

Það var vel mætt á viðburðinn og vilja Þroskahjálp koma á framfæri þökkum til forseta Íslands, starfsfólks Ásgarðs, nemendum Fjölmenntar og öllum þeim sem mættu og tóku þátt í þessum baráttu- og fagnaðardegi með okkur.

 

Viðurkenningarhafar Múrbrjótsins 2024

Magnús Orri Arnarsson Múrbrjótur Landssamtakanna Þroskahjálpar 2024

Fyrir að vera frábær fyrirmynd sem nýtir styrkleika sína og hæfileika til að láta drauma sína rætast með þrautseigju og dugnað að vopni.

 

Magnús Orri er með óbilandi áhuga á ljósmyndun og myndbandaframleiðslu.  Hann stofnaði sitt eigið fyrirtæki sem heitir MOA production sem vinnur fjöldamörg verkefni fyrir fyrirtæki með því að búa til auglýsingar og kynningarmyndbönd. Hann hefur unnið verkefni fyrir BBC sem fólst í því að taka drónamyndir af einu af eldgosunum á Reykjanesi.

Hann keppti á heimsleikum Special Olympics í Abu Dhabi 2019 og vann jafnframt kynningarefni um íslenska hópinn. Í kjölfar þess varð Magnús Orri liðsmaður sjónvarpsþáttanna ,,Með Okkar Augum” .

Magnús Orri hefur unnið mörg verkefni fyrir Special Olympis en hann fór á heimsleikana árið 2023 og gerði kynningarmyndband og myndaði einnig sjónvarpsþátt um leikana fyrir RÚV.

Magnús Orri Arnarsson var aðalljósmyndari á leiðtogaráðstefnu Special Olympics í Evrópu sem fram  fór í Berlín núna í haust en Special Olympics í Evrópu (SOEE) bauð Magnúsi að mynda ráðstefnuna. Hann er nú orðið vel kynntur innan íþróttahreyfingarinnar fyrir vönduð vinnubrögð verkefna fyrir Special Olympics á Íslandi. 

Til að efla sig og læra meira í þessum geira hefur Magnús Orri farið á ýmis námskeið hjá Canon og á vegum skóla erlendis.

 

Verkefni framundan eru ærin en Magnús Orri mun vinna kynningarmyndband fyrir vetrarheimsleika Special Olympics sem verða í Turin á Ítalíu og í framhaldinu mun hann fara þangað fyrir hönd Special Olympics á Íslandi til að mynda og fylgja hópnum frá Íslandi eftir.

Einnig má geta þess að Magnús Orri hefur fengið verkefni fyrir Netflix.

Hann hefur verið áberandi talsmaður fatlaðs fólks og hvetur alla til að gefa fötluðu fólki tækifæri til þess að láta drauma sína rætast.

 

Haukur  Guðmundsson og Aileen Soffía Svensdóttir Múrbrjótar Þroskahjálpar 2024.

 Fyrir framlag sitt með hlaðvarpinu ,,Mannréttindi fatlaðra‘‘.

 

Hlaðvarpið Mannréttindi fatlaðra er verkefni sem stofnað var til að frumkvæði Hauks og Aileen sem bæði eru baráttufólk fyrir réttindum fatlaðra. Bæði hafa þau gengt forystu í Átaki, félagi fólks með þroskahömlun, en Haukur er núverandi formaður félagsins.

Hlaðvarpið, Mannréttindi fatlaðra, er frumkvæði þar sem fatlað fólk stýrir umræðunni frá upphafi til enda og setur mál sem brenna á fötluðu fólki á dagskrá. Viðmælendahópurinn er fjölbreyttur og umfjöllunarefnin sömu leiðis. Með því að verðlauna Hauk og Aileen er bæði verið að þakka þeim fyrir vel unnin störf og hvetja þau áfram í starfi sínu í tengslum við hlaðvarpið.

Mannréttindi fatlaðra var stofnað fyrir fjórum árum og er enn í fullum gangi. Allt frá stofnun og til dagsins í dag brýtur verkefnið bæði niður múra hjá þeim sem stýra hlaðvarpinu og þeim sem hlusta. Frekari upplýsingar um verkefnið og þættir sem komið hafa út undir merkjum Mannréttindi fatlaðra eru aðgengilegir á Facebook, Soundcloud og Spotify.

Haukur og Aileen hafa verið öflugir talsmenn fatlaðs fólks um langt skeið og eru sannarlega miklir Múrbrjótar sem hafa skapað sér vettvang til þess að láta raddir þeirra heyrast sem víðast.

Við hjá Þroskahjálp óskum Múrbrjótum Landssamtakanna Þroskahjálpar ársins 2024 innilega til hamingju með viðurkenningarnar.