Múrbrjótur Landssamtakanna Þroskahjálpar var afhentur í dag, 2. desember, en þetta er í 29. skipti sem þessi viðurkenning er veitt.
Múrbrjóturinn dregur nafn sitt af því að viðurkenningin er veitt þeim sem að mati samtakanna brjóta niður múra í réttindamálum og viðhorfum til fatlaðs fólks og stuðla þannig að því að það fái tækifæri til að vera fullgildir þátttakendur í samfélaginu og til að lifa eðlilegu lífi til jafns við aðra. Viðurkenningin er veitt á hverju ári, í tengslum við alþjóðadag fatlaðs fólks.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra veitti viðurkenninguna við hátíðlega athöfn.
Áslaug Arna kom í ræðu sinni inn á mikilvægi múrbrjóta í samfélaginu þar sem að aðgengi fatlaðra að lykilstoðum samfélagsins sé ekki enn tryggður. Hún benti á að nám og aðgengi að námi sé einn af „lyklum" samfélagsins sem þurfi að vera aðgengilegur fötluðu fólki og að þar taki hún sitt hlutverk sem ráðherra háskólamála alvarlega.
Í ár voru þrír Múrbrjótar veittir og þeir sem fengu viðurkenninguna í ár eru eftirfarandi:
Lára Þorsteinsdóttir
Fyrir baráttu fyrir aðgengi að háskólanámi án aðgreiningar.
Lára hefur brennandi áhuga á sagnfræði og hefur barist ötullega fyrir því að fá að stunda nám í sagnfræðideild HÍ. Hún hefur verið óhrædd við að gagnrýna stjórnvöld og tala fyrir því að fatlað fólk eigi sama rétt og aðrir á að mennta sig og lætur ekkert stoppa sig.
Lára fékk inngöngu í grunnáfanga í haust og fær hún að láta ljós sitt skína og læra það sem hún hefur áhuga á.
Finnbogi Örn Rúnarssson
Fyrir baráttu fyrir aðgengi að háskólanámi án aðgreiningar.
Finnbogi Örn hóf nám í fréttamennsku við Háskóla Íslands í haust en hann hefur um árabil haldið úti fréttamiðli á samfélagsmiðlinum Instagram ,,Fréttir með Finnboga‘‘ sem vakið hefur mikla athygli og opnað augu fólks fyrir því að gefa öllum tækifæri án aðgreiningar.
Hann er algjör fréttafíkill og fylgist vel með því sem er í gangi hverju sinni og hefur gott fréttanef. Hann hefur einnig fengið að vera sérstakur gestur Kastljóss og tók viðtal við Katrínu Jakobsdóttur um stuðningu íslenskra stjórnvalda við fötluð börn í Úkraínu.
Eva Ágústa Aradóttir og Guðlaug Svala Kristjánsdóttir
Fyrir hlaðvarpsþættina ,,Ráfað um rófið’’ er fjalla um einhverfu frá hinum ýmsum hliðum í daglegu lífi.
Eva Ágústa og Guðlaug Svala fjalla í hlaðvarpinu um einhverfu frá hinum ýmsum hliðum og fá gjarnarn til sín einhverft fólk til að ræða um ýmsilegt sem það er að upplifa í daglegu lífi. Hlaðvarpið er sjálfsprottið framtak þeirra tveggja, í framhaldi af hugmynd Evu Ágústu og tekið upp í Rabbrými Bókasafns Hafnarfjarðar. Hafa þessir þættir opnað sýn margra fyrir fjölbreytileika einhverfunnar og eru jafnvel læknar og sérfræðingar farnir að benda fólki á þetta fræðsluefni. Þær hafa fengið til sín góða gesti og ræða allt milli himins og jarðar eins og t.d. húmor, vináttu, einhverfugrímuna, áföll, fíkn, samskipti, aðgengi, skilning og skilningsleysi, valdamisvægi og siðfræði.
Við óskum Múrbrjótum ársins innilega til hamingju og þökkum þeim fyrir hugrekkið og þrautseigjuna.