Í dag fór fram samráðsþing í Hörpu undir yfirskriftinni Ný framtíð. Þar var fjallað var um landsáætlun um innleiðingu á samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Að þinginu stóðu félags- og vinnumarkaðsráðuneytið ásamt forsætisráðuneytinu, Þroskahjálp, ÖBÍ, Geðhjálp og Samband íslenskra sveitarfélaga.
Á samráðsþinginu var kynntur afrakstur vinnu síðustu mánuða þar sem 11 vinnuhópar hafa unnið með greinar úr samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks og mótað tillögur að aðgerðum til að tryggja farsæla innleiðingu hans og að lokum lögfestingu samningsins. Þroskahjálp á fulltrúa í öllum þessum hópum og hefur starfsfólk Þroskahjálpar lagt allan sinn metnað og hugsjón í að úr verði raunverulegar aðgerðir sem styrki stöðu fatlaðs fólks í íslensku samfélagi.
Það var mikill kraftur í Hörpu í dag, en um 300 manns sem mættu til að kynna sér þessa mikilvægu vinnu. Allir hópar kynntu tillögur sínar, sem einkenndust af framsækni og metnaði.
„Andrúmsloftið í samfélaginu er breytt og finnum við fyrir mikilli viðhorfsbreytingu. Mikilvægt er að virkja þann kraft og meðbyr sem við finnum í dag til að tryggja samfélagslega þátttöku fatlaðs fólks. Tíminn er núna!“ Sagði Unnur Helga, formaður Þroskahjálpar, í ávarpi sínu á þinginu í dag.
Við hjá Þroskahjálp þökkum félags- og vinnumarkaðsráðherra, Guðmundi Inga, og starfsfólki ráðuneytisins fyrir að hefja þessa mikilvægu vinnu og fyrir að leiða saman að borðinu þennan fjölbreytta hóp fólks. Við þökkum líka hugsjónafólkinu úr öllum þeim hagsmunasamtökum fatlaðs fólks sem hafa tekið þátt fyrir samstarfið hingað til og við hlökkum til áframhaldandi vinnu.
Fyrir þau sem ekki gátu mætt á staðinn er hægt að nálgast upptöku af samráðsþinginu og nánar um dagskránna á vef Stjórnarráðsins.
Sjá upptöku