Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar birtir nú gæðaviðmið fyrir félagslega þjónustu við fatlað fólk. Gæðaviðmiðin voru unnin í náinni samvinnu við helstu hagsmunaaðila í málaflokknum en að vinnunni komu auk fulltrúa stofnunarinnar: Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Landssamtökin Þroskahjálp, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök félagsmálastjóra, velferðarsvið Reykjavíkurborgar og Öryrkjabandalag Íslands.
Opinber gæðaviðmið á borð við þau sem nú eru birt hafa ekki verið gefin út áður á Íslandi. Um er að ræða nýja nálgun við mat á þjónustu hér á landi. Viðmiðin eru fyrst og fremst mannréttindamiðuð og eru hugsuð til leiðsagnar fyrir eftirlitsaðila og þjónustuveitendur en gagnast jafnframt notendum þjónustunnar við að meta framkvæmd hennar.
Samhliða gæðaviðmiðunum sem eru fjögur talsins eru settar fram fjórar samræmdar meginreglur í þjónustu við fatlað fólk. Reglurnar byggja á grundvallarmannréttindum eins og þau birtast í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og íslensku lagaumhverfi í málaflokknum.
Til að meta gæði þjónustunnar hafa verið útbúnir gæðavísar fyrir hvert og eitt viðmið og meginreglur. Gæðavísarnir eru settir fram í 1. persónu eintölu þar sem sjónarhorn notandans er í fyrsta sæti. Þeir eru mikilvægt tæki við að fá mynd af skoðun og upplifun notandans af þeirri þjónustu sem hann fær og gefa þannig vísbendingar um hvernig gæðaviðmiðin eru uppfyllt eða þeim mætt í þjónustunni.
Gæðaviðmiðin eru birt á auðskildu máli en Landssamtökin Þroskahjálp voru fengin til að aðstoða við að búa til auðlesinn texta fyrir viðmiðin í samstarfi við sérfræðinga sem nota auðlesið mál.
Hvetjum við alla til að kynna sér þessi viðmið.