Landssamtökin Þroskahjálp óska nýrri ríkisstjórn velfarnaðar og vonast eftir góðu samstarfi við hana við að tryggja fötluðu fólki mannréttindi og tækifæri til sjálfstæðs og eðlilegs líf til jafns við aðra. Þar er mikið verk að vinna. Samtökin hvetja ráðherra ríkisstjórnarinnar til að taka mjög alvarlega skyldur sínar samkvæmt lögum og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks til að hafa í góðri trú mikið samráð við fatlað fólk og samtök og félög sem standa vörð um réttindi þess og hagsmuni.
Þessar skyldur eru orðaðar svo í lögum um málefni fatlaðs fólks:
Þá skulu stjórnvöld tryggja heildarsamtökum fatlaðs fólks og aðildarfélögum þeirra áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni fatlaðs fólks.
Og í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks segir:
Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu við að innleiða samning þennan og vinna að því að taka ákvarðanir um stöðu fatlaðs fólks skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar með talið fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.