Inga Björk hefur verið ráðin verkefnastjóri upplýsinga- og kynningarmála hjá Landssamtökunum Þroskahjálp. Hún hefur sinnt fjölbreyttum verkefnum á sviði verkefnastjórnunar og markaðs- og kynningarmála, ásamt því að vekja eftirtekt fyrir baráttu sína fyrir réttindum fatlaðs fólks. Inga Björk hlaut hvatningarverðlaun Öryrkjabandalags Íslands árið 2012.
Hún hefur verið virk í félagsstörfum og var kjörin formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar árið 2018. Hjá Samfylkingunni hefur hún meðal annars komið að innra starfi, daglegum rekstri og viðburðarstjórnun. Þá hefur hún tekið virkan þátt í störfum Tabú – femínískrar fötlunarhreyfingar og NPA miðstöðvarinnar.
Inga Björk stofnandi Plan-B Art Festival og var verkefna- og sýningarstjóri Listar án landamæra sem leggur áherslu á listsköpun fatlaðra listamanna og Þroskahjálp á aðild að.
Inga Björk er með BA gráðu í listfræði með fjölmiðlafræði sem aukagrein frá Háskóla Íslands og lýkur MA gráðu í listfræði frá sama skóla í haust.
Þroskahjálp býður Ingu Björk velkomna til starfa og hlakkar til samstarfsins við þessa öflugu baráttukonu fyrir mannréttindum fatlaðs fólks.