Unnur Helga, formaður Þroskahjálpar
Ræða Unnar Helgu Óttarsdóttur, formanns Þroskahjálpar á alþjóðlegum degi fatlaðs fólks við afhendingu Múrbrjótsins.
Ágæti félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, kæru gestir og öll sem eruð að fylgjast með á streyminu.
Við viljum þakka ráðherra kærlega fyrir að gefa sér tíma til að afhenda Múrbrjótinn í dag og að taka þátt í gleðinni. Við metum það mikils.
Einnig viljum við þakka ykkur öllum fyrir að vera með okkur í dag og taka þannig þátt í þessum baráttu- og fagnaðardegi með okkur, alþjóðadegi fatlaðs fólks. Þessi dagur snýst nefnilega fyrst og fremst um að vekja athygli á aðstæðum og mannréttindum fatlaðs fólks. Um leið fögnum við fjölbreytileikanum í samfélaginu og þeim stórkostlega fjársjóði sem hann er á öllum sviðum, fyrir samfélög sem virða jöfn tækifæri fólks og veita öllum raunhæf tækifæri til að vera með, taka þátt og njóta lífsins, án mismununar og aðgreiningar.
Alþjóðadagur fatlaðs fólks var fyrst haldinn árið 1992 af Sameinuðu þjóðunum í þeim tilgangi að vekja athygli á málefnum og réttindum fatlaðs fólks um allan heim og til að auka vitund almennings um mikilvægi þess að skapa samfélög án aðgreininar þar sem fatlað fólk er þátttakendur á öllum sviðum, hvort heldur sem er í stjórnmála-, félags-, efnahags-, eða menningarlífi.
Þroskahjálp hefur óslitið frá árinu 1993 haldið upp á þennan dag með því að veita Múrbrjóta þeim aðilum sem þykja hafa sýnt frumkvæði og ýtt undir nýsköpun varðandi þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu og þannig sýnt mikilvægt frumkvæði og framtak við að brjóta niður múra í samfélaginu og viðhorfum fólks sem hindra að fatlað fólk fái þau tækifæri sem það á að njóta til jafns við aðra eins og ríki heims hafa skuldbundið sig til að tryggja með alþjóðlegum mannréttindasamningum. Margt hefur áunnist í baráttunni og ýmsum múrum hefur verið rutt úr vegi og mikið hefur molnað úr öðrum en því miður eru múrarnir sem mæta fötluðu fólki á öllum sviðum samfélagsins enn þá allt of margir og allt of háir.
Einkennisorð þessa alþjóðadags Sameinuðu Þjóðanna þetta árið er: Forysta og þátttaka fatlaðs fólks í heimi án aðgreiningar, aðgengi fyrir alla og sjálfbærni eftir Covid-19.
Talið er að um 15% jarðarbúa eða um einn milljarður sé með einhvers konar fötlun og stór hluti þeirra, eða um 80%, býr í þróunarlöndum þar sem oft á tíðum er mikill skortur á menntun, heilsugæslu og þjónustu.
Við verðum að gæta sérstaklega að öllum aðgengismálum er tengjast fötluðu fólki. Þar vil ég sérstaklega nefna aðgengi að menntun, atvinnu, þjónustu, íþróttaiðkun, tómstundum og það að eignast heimili.
Menntun er lykill að atvinnutækifærum og það er að verða enn þá mikilvægara með hverjum deginum þegar gervigreind og aukin sjálfvirknivæðing eru að útrýma störfum sem ekki krefjast sérstækrar hæfni og þekkingar.
Fjórða iðnbyltingin er á fleygiferð og erum við öll að reyna að meðtaka allar tækninýjungar og læra nýja hluti sem fyrir nokkrum árum hefði okkur fundist vera óhugsandi. Einföldum störfum er að fækka samhliða því. Við verðum að standa vörð um aðgengi fatlaðs fólks á vinnumarkaðinum.
Verðum við einnig sérstaklega að bæta aðgengi er tengist rafrænum skilríkjum fyrir þá sem eiga í erfiðleikum með að tileinka sér allar þessar tækniframfarir og tölvufærni því að staðan í dag er þannig að allt er orðið rafrænt. Við megum alls ekki gleyma þessum hópi sem því miður er oft raunin.
Í nýjum stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur og að lögð verði áhersla á að fjölga störfum fyrir fatlað fólk með skerta starfgetu og að tryggja eigi menntunartækifæri fyrir fatlað fólk. Við vonum svo sannarlega að staðið verði við stóru orðin og munum fylgja því fast eftir.
Við óskum Guðmundi Inga velfarnaðar sem félagsmála- og vinnumálaráðherra og fögnum því að hann ætli að setja málefni öryrkja á oddinn.
Við hjá Þroskahjálp vonum að við eigum eftir að eiga gott og uppbyggilegt samstarf til að tryggja og verja mannréttindi fatlaðs fólks.
Eins og segir í heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna ,,Skiljum engan eftir’’.
Múrbrjóturinn dregur nafnið sitt af því að viðurkenningin er veitt þeim sem að mati samtakanna brjóta niður múra í réttindamálum og viðhorfum til fatlaðs fólks og stuðla þannig að því að það fái tækifæri til að vera fullgildir þátttakendur í samfélaginu og til að lifa eðlilegu lífi til jafns við aðra.
Múrbrjótarnir eru smíðaðir á handverkstæðinu Ásgarði þar sem fólk með þroskahömlun starfar.
Við ætlum að veita þrjá Múrbrjóta í ár og tengjast þeir allir 30. grein samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólk um þátttöku í menningarlífi, tómstundar-, frístunda og íþróttastarfi.
Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að framfylgja á öllum sviðum er kveðið á um skyldur ríkja til að brjóta niður múra sem koma í veg fyrir að fatlað fólk fái tækifæri til að taka þátt í menningarlífi og íþróttastarfi eins og aðrir og án aðgreiningar. Það er ekki að ástæðulausu að sérstaklega er kveðið á um þetta í samningnum. Hvarvetna í heiminum mæta háir múrar fötluðu fólki sem vill fá þessi tækifæri sem vill fá að njóta þessara tækifæra og réttinda. Manngerðir múrar, þar sem múrsteinarnir eru fordómar, óþarfar og tilgangslausar hindranir og kröfur í lögum og reglum, skortur á skilningi og stuðningi, kerfishugsun, þröngsýni og íhaldssemi. Ísland er engin undantekning frá þessu og íslensk stjórnvöld hafa því miður verið mjög litlir múrbrjótar á þessum sviðum. En batnandi mönnum er best að lifa og það á líka við um stjórnmálamenn og kannski bara sérstaklega vel við um þá. Við viljum a.m.k. leyfa okkur að vona að ráðherrar og alþingismenn sem eru nú að taka til starfa muni reynast öflugir múrbrjótar í þágu mannréttinda fatlað fólks.
En nú ætlum við að veita fólki sem hefur að mati Þroskahjálpar sýnt mjög mikilvægt framtak og frumkvæði og kjark við að brjóta niður vonda múra sem standa því í vegi að fatlað fólk fái raunveruleg tækifæri til þátttöku í samfélaginu.
Smelltu hér til að lesa um handhafa Múrbrjótsins.