Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks 10 ára.
Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti ályktun 13. desember 2006 um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Upphaf samningsins, ef svo má segja, er miðað við þann dag. Samningurinn er því 10 ára í dag, 13 desember 2016.
Markmið samningsins eru að „efla, verja og tryggja full og jöfn mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk til jafns við aðra, jafnframt því að efla og vinna að virðingu fyrir eðlislægri mannlegri reisn þess.“
Mikilvægustu skilaboð samningsins til okkar allra eru að fatlaðir einstaklingar eiga fullan rétt á öllum viðurkenndum mannréttindum til jafns við aðra og að fá njóta einstaklingsfrelsis eins og annað fólk. Til að svo megi verða leggur samningurinn sérstaka áherslu á tækifæri fatlaðs fólks til fullrar þátttöku á öllum sviðum mannlífsins og beinir spjótum sínum að venjum og siðum, stöðluðum ímyndum, fordómum, skaðlegri framkvæmd, einangun og útilokun sem tengist fötluðu fólki.
Mjög fáir alþjóðlegir samningar hafa verið fullgiltir af jafnmörgum ríkjum á skömmum tíma og samningurinnum um réttindi fatlaðs fólks. Á þeim 10 árum sem liðin eru frá því að Sameinuðu þjóðirnar lögðu samninginn fram hafa fleiri en 160 ríki fullgilt hann og þar með skuldbundið sig til að virða og framfylgja ákvæðum hans. Samningurinn er mjög öflugt tæki í baráttunni fyrir fullum mannréttindum fatlaðs fólks. Mikilvægasta verkefnið er þó enn og verður áfram að tryggja öllu fötluðu fólki í verki öll þau réttindi til fulls sem samningurinn mælir fyrir um.
Eftirlitsnefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna hefur efftirlit með að ríki sem hafa fullgilt samninginn standa sig við að framfylgja honum með því að taka lög, reglur og framkvæmd þeirra út reglulega og gerir tillögur til ríkja um hvernig þau geta tekið á brotum gegn ákvæðum samningsins og tryggt fötluðu fólki full réttindi samkvæmt honum.
Staða samningsins á Íslandi.
Íslenska ríkið fullgilti samninginn sl. haust og skuldbatt sig þar með til að tryggja fötluðu fólki öll þau réttindi til fulls sem þar er mælt fyrir um. Samningurinn var undirritaður af hálfu Íslands fyrir meira en 9 árum og höfðu langflest ríki í heiminum fullgilt samninginn þegar íslenska ríkið gerði það. Fullgilding samningsins er mikilvægur áfangi í að tryggja fötluðu fólki mannréttindi og tækifæri sem flestu ófötluðu fólki þykja sjálfsögð. Þar er mikið verk að vinna og vonandi ganga íslensk stjórnvöld rösklegar fram við það en þau hafa gert við fullgildingu þessa mikilvæga mannréttindasamnings.
Valkvæður viðauki við samninginn.
Ísland undirritaði valkvæðan viðauka við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks um leið og það undirritaði samninginn sjálfan árið 2007. Valkvæði viðaukinn mælir fyrir um kæruleið fyrir einstaklinga og hópa sem telja að íslensk stjórnvöld hafi ekki veitt þeim þann rétt sem þeim ber samkvæmt samningnum og hafa árangurslaust nýtt þau úrræði sem þeir hafa samkvæmt íslenskum lögum og stjórnkerfi til að ná því fram sem þeir telja sig eiga rétt á samkvæmt samningnum. Eftirlitnefndin getur óskað upplýsinga frá ríkjum og beint tilmælum til þeirra. Með því að fullgilda valkvæða viðaukann verður virkara aðhald með ríkjum um að framfylgja samningnum, réttaröryggi fatlaðs fólks meira og mannréttindi þess betur varin.
Lögfesting samningsins.
Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins var tekinn í íslensk lög árið 2013. Það var gert til að tryggja enn betur en gert var með fullgildingu samningsins þau réttindi sem samningurinn mælir fyrir um.
Sömu rök eiga við um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Með því að lögfesta samninginn verður mannréttindum fatlaðs fólks veitt aukin vernd og réttaröryggið eykst. Fatlaður einstaklingur getur þá borið ákvæði samningsins fyrir sig sem ótvíræða réttarreglu fyrir dómi eða stjórnvöldum. Lögfesting mun vekja jafnt almenning og þá sem fjalla um málefni fatlaðs fólks fyrir dómstólum, í stjórnsýslu og við undirbúning að lagasetningu, til frekari vitundar um mannréttindi fatlaðs fólks og þá virðingu sem verður að ætlast til að þeim sé sýnd í réttarríki. Lögfesting samningsins um fatlað fólk mun og auka, á alþjóðavettvangi, traust á virðingu íslenska ríkisins fyrir mannréttindum fatlaðs fólks.
Á þessum hlekk á heimasíðu Mannréttindastofnunar Sameinuðu þjóðanna (OHCHR) má skoða myndband sem gert hefur verið um samninginn í tilefni af 10 ára afmæli hans. Skoða hér