Sanngirnisbætur vegna vistunar fatlaðra barna

Landssamtökin Þroskahjálp hafa síðastliðin 12 ár barist fyrir því að aðstæður fatlaðra barna sem vistuð voru á stofnunum verði rannsakaðar og þeim greiddar sanngirnisbætur til jafns við aðra sem fengið hafa bætur af því tagi. Samtökin hafa margítrekað þær sanngirniskröfur og of lengi og of oft talað fyrir daufum eyrum.

Barátta samtakanna í gegnum árin hefur þó smám saman orðið til þess að hreyfing hefur komst á þessi miklu réttlætismál.

Árið 2008 óskuðu Landssamtökin Þroskahjálp eftir því að opinber rannsókn yrði gerð á aðbúnaði fatlaðra barna sem vistuð voru á stofnunum og var beiðnin ítrekuð margoft. Árið 2012 brást forsætisráðherra loks við erindinu og endurskipaði þá vistheimilanefnd til þess að taka til sérstakrar rannsóknar vistun og aðbúnað barna með fötlun á opinberum stofnunum. Fékk nefndin það hlutverk að kanna fyrst aðbúnað barna sem vistuð voru á Kópavogshæli.

Í skýrslunni um Kópavogshæli kom fram að ekki sé ástæða til að ætla annað en að fötluð börn sem vistuð voru á öðrum stofnunum hafi líka búið við óásættanlegar aðstæður. Lagði nefndin til að einstaklingar sem vistaðir voru á sambærilegum stofnunum og Kópavogshæli væri gefinn kostur á að sækja bætur án þess að jafn ítarleg rannsókn færi fram. Í skýrslunni kom fram mikilvægi þess að veita fötluðu fólki viðeigandi stuðning til þess að sækja rétt sinn.

Samtökin fagna því að nú stendur til að fara að tillögum nefndarinnar hvað varðar fatlað fólk sem vistað var á stofnunum sem börn. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hefur haft frumkvæði að því og vilja Landssamtökin Þroskahjálp hrósa henni fyrir það framtak.

Bent skal á að í lögum er gert ráð fyrir því að einungis séu stofnanir sem ekki starfa lengur skoðaðar en Þroskahjálp leggur mikla áherslu á að því verði breytt enda eru nokkrar þeirra stofnana sem nefndar eru í skýrslunni enn starfandi.
Augljóst er að það er ekki einungis mjög óréttlátt gagnvart hlutaðeigandi einstaklingum að gera greinarmun að þessu leyti á stofnunum sem ekki starfa lengur og þeim sem það gera, heldur fullkomlega ómálefnalegt og fer í bága við jafnræðisreglur laga. Rétta verður hlut fatlaðs fólks sem þola hefur mátt óásættanlega meðferð og/eða búið við ófullnægjandi aðstæður þar sem það hefur verið vistað sem börn.

Hér má sjá umfjöllun fjölmiðla um málið:
RÚV, 7. janúar 2020: https://www.ruv.is/…/vilja-geta-greitt-sanngirnisbaetur-an-…

Stöð 2, 7. janúar 2020: https://www.visir.is/…/fatladir-fa-sann-girnis-baetur-verdi…

RÚV, 15. desember 2018: https://www.ruv.is/…/throskahjalp-aetlar-afram-ad-thrysta-a…

RÚV, 17. desember 2018: https://www.ruv.is/…/vont-ad-lida-eins-og-fatladir-seu-minn…

Mbl, 11. október 2017: https://www.mbl.is/…/2017/10/11/throskahjalp_skora_a_stjor…/