Anna Lára og Sara Dögg
Okkar frábæru starfsmenn, Anna Lára Steindal og Sara Dögg Svanhildardóttir, voru í morgunútvarpi Rásar 2 en þær halda til Malaví á morgun til að undirbúa þróunarsamvinnuverkefni um samfélagsþátttöku og aðgengi fatlaðra barna að menntun í Mangochi-héraði.
Smelltu hér til að hlusta, en viðtalið hefst á 23. mínútu.
Landssamtökin Þroskahjálp hlutu fyrr í haust styrk frá utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra til þess undirbúning þessa mikilvæga verkefnis.
Markmið verkefnisins er að auka möguleika fatlaðra barna til náms og þátttöku í samfélaginu og vinna að vitundarvakningu um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, en stjórnvöld í Malaví gerðust aðili að samningnum árið 2009. Verkefnið verður unnið í samvinnu við FEDOMA, samtökum fatlaðs fólks í Malaví og verður hluti verkefnisins stuðningur við starfsemi þeirra á svæðinu.