Stebbi okkar lést úr hjartaáfalli sl. föstudag. Stebbi starfaði hjá Þroskahjálp í mörg, mörg ár, sem sendill, einstaklega greiðvirkinn, samviskusamur og ábyrgur.
En Stebbi var ekki bara afbragðsgóður samstarfsmaður. Hann var líka mikill vinur okkar allra.
Það var auðvelt að kunna vel við Stebba og þykja mjög vænt um hann því að hann var mannkostamaður. Kjarkmikill og úrræðagóður, duglegur og samviskusamur, skapgóður og skemmtilegur, tryggur og hlýr, gamansamur og orðheppinn. Það var þess vegna mjög gaman að fá að kynnast honum og gott að umgangast hann og gefandi að vera vinur hans.
Stebbi var höfðingi í lund og höfðingi í háttum, eins og allir vita sem honum kynntust. Það er mjög sárt að þurfa nú að kveðja hann allt of fljótt. En minningarnar sem við eigum um þennan einstaka mann og góða dreng eru mjög margar og hlýjar og ógleymanlegar.
Innilegar þakkir fyrir allt, kæri vinur og hvíldu í friði.
Útför Stebba fer fram frá Digraneskirkju föstudaginn 18. janúar kl. 15:00.