Unnur Helga Óttarsdóttir og Sara Dögg Svanhildardóttir, starfsmenn Þroskahjálpar og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.
Þroskahjálp hefur hlotið 3 milljón kr. styrk frá Guðmundi Inga, félags- og vinnumarkaðsráðherra, vegna verkefnisins Ungt fólk og framtíðin.
Landssamtökin Þroskahjálp hafa undanfarið ár, undir forystu Söru Daggar Svanhildardóttur, unnið að verkefni sem snýr að því að kortleggja náms- og atvinnutækifæri fyrir ungt fólk með þroskahömlun og skyldar raskanir að loknum framhaldsskóla. Verkefnið er unnið með styrk frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og menntamálaráðuneytinu og var ein af tillögum verkefnishóps á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins sem fjallaði um úrbætur í menntun, atvinnu og tómstundum fyrir nemendur sem lokið hafa námi á starfsbrautum framhaldsskóla.
Í ljós kom að rík þörf er á stórátaki til þess að auka þau tækifæri sem ungu fötluðu fólk bjóðast. Þetta er sérstakt áhyggjuefni í ljósi þeirra breytinga sem eru að verða á vinnumarkaði vegna stafrænnar framþróunar og fjórðu iðnbyltingarinnar, og mikilvægt að stjórnvöld uppfylli skyldur sínar sem kveðið er á um í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þessi viðbótarstyrkur til Þroskahjálpar verður tól til þess að efla verkefnið.
Næsta skref mun fela í sér aukið samstarf við ungmennaráð Þroskahjálpar, þar sem Sunna Dögg, er verkefnisstjóri. Munu Sunna og Sara vinna að því að kalla fram áherslur og sýn ungs fólks á eigin framtíð, og móta tillögur úr þeirri vinnu. Þá verður opinn dagur um námstækifæri fatlaðs fólks í samstarfi við Fjölmennt. Í lok verkefnis verða niðurstöður samráðs settar fram í skýrslu og kynntar opinberlega.
Ungmennaráð Þroskahjálpar styrkir starf samtakanna í ýmsum mikilvægum málum sem varða réttindi og hagsmuni ungs fólks. Ráðið er vettvangur þar sem ungt fólk með þroskahömlun og/eða einhverfu fær betri tækifæri til að vera virkir þátttakendur í umræðu og stefnumótun sem varðar réttindi þess og mikilvæg hagsmunamál.