Sunna Dögg valin varafulltrúi Íslands á samevrópsku stjórnmálaþingi

Sunna Dögg Ágústsdóttir
Sunna Dögg Ágústsdóttir
Verkefnisstjóri ungmennaráðs Þroskahjálpar, Sunna Dögg Ágústsdóttir, hefur verið valin sem varafulltrúi Íslands á samevrópsku stjórnmálaþingi með fulltrúum svæðis- og sveitarstjórna í 47 Evrópuríkjum árið 2022. Hlutverk þingsins er m.a. að efla svæðisbundið lýðræði og bæta stjórnsýslu sveitarfélaga og landshluta.
 
Frá árinu 2014 hefur fjölbreyttum hópi ungs fólks í Evrópu verið boðið til fundar við þingið með það að markmiði að gefa því tækifæri til að tjá skoðanir sínar á mikilvægum málum sem varða ungt fólk sérstaklega.
 
Að taka þátt í þessu verkefni veitir ungu fólki einstakt tækifæri til að öðlast alþjóðlega reynslu, taka virkan þátt í hagsmunabaráttu ungs fólks í Evrópu, skapa tengslanet og hafa áhrif með því að koma málum sem varða ungt fólk á dagskrá og til umræðu á þessum vettvangi. Það er því sérlega ánægjulegt að fulltrúi ungmennaráðs, talsmaður fatlaðra barna, hafi valist í þetta hlutverk.
Við erum sérstaklega stolt af Sunnu Dögg og óskum henni góðs gengis í verkefninu.