Utanríkisráðherra hefur lagt fram á Alþingi þingsályktunartillögu þar sem leitað er heimildar Alþingis til fullgildingar á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Fyrri umræða um þingsályktunartillöguna er á dagskrá Alþingis í dag.
Landssamtökin Þroskahjálp fagna því að þingsályktunartillagan skuli vera fram komin því að löngu er tímabært að Ísland fullgildi þennan mikilvæga mannréttindasamning sem var gerður fyrir um tíu árum síðan. Í þingsályktunartillögunni sem nú liggur fyrir Alþingi segir m.a.:
Þingsályktunartillaga um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks lögð fram á Alþingi.
Utanríkisráðherra hefur lagt fram á Alþingi þingsályktunartillögu þar sem leitað er heimildar Alþingis til fullgildingar á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Fyrri umræða um þingsályktunartillöguna er á dagskrá Alþingis í dag.
Landssamtökin Þroskahjálp fagna því að þingsályktunartillagan skuli vera fram komin því að löngu er tímabært að Ísland fullgildi þennan mikilvæga mannréttindasamning sem var gerður fyrir um tíu árum síðan. Í þingsályktunartillögunni sem nú liggur fyrir Alþingi segir m.a.:
Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti samninginn um réttindi fatlaðs fólks og valkvæða bókun hans 13. desember 2006. Hinn 30. mars 2007 var opnað fyrir undirskriftir og þann dag undirrituðu 81 aðildarríki samninginn, þar á meðal Ísland. Síðan þá hafa 166 aðildarríki fullgilt samninginn. Samningurinn viðurkennir mannréttindi fatlaðs fólks, sem eru þau sömu og annarra, en staðfestir jafnframt rétt fatlaðs fólks til að njóta þessara réttinda. Markmið samningsins, eins og fram kemur í 1. gr. hans, er að fatlað fólk njóti allra mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við aðra, jafnframt því að vernda og tryggja slík réttindi og frelsi og að auka virðingu fyrir eðlislægri mannlegri reisn þess.
Landssamtökin Þroskahjálp hvetja Alþingi til að hraða afgreiðslu þingsályktunartillögunnar til að fullgilda megi samninginn án frekari dráttar.
Í þingsályktunartillögunni segir um valkvæðan viðauka við samninginn:
Við samninginn hefur einnig verið gerður valkvæður viðauki sem felur í sér tvær eftirlitsleiðir til viðbótar sem nefndin getur nýtt sér. Annars vegar er um að ræða kvörtunarleið fyrir einstaklinga til nefndarinnar og hins vegar leið fyrir nefndina til að rannsaka alvarleg eða kerfisbundin brot gegn samningnum, með samþykki viðkomandi aðildarríkis. Ekki er lagt til að svo stöddu að viðaukinn verði fullgiltur hér á landi.
Landssamtökin Þroskahjálp lýsa miklum vonbrigðum með að íslensk stjórnvöld skuli ekki ætla að fullgilda viðaukann við samninginn um leið og samningurinn sjálfur verður fullgiltur. Þessi viðauki felur í sér nauðsynlegt aðhald og eftirlit með að ríki fari að samningsskuldbindingum sínum og tryggir einstaklingum og hópum sem telja á sér brotið mikilvægt úrræði og leið til að leita réttar síns. Landssamtökin Þroskahjálp hvetja því íslensk stjórnvöld til að leggja nú þegar fram þingsályktunartillögu um fullgildingu viðaukans við samninginn við samninginn.
Þá skora Landssamtökin Þroskahjálp á stjórnnvöld að hefja nú þegar markvissan undirbúning að því að taka samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í íslensk lög eins skjótt og verða má eins og gert var með barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna árið 2013.
Hvers vegna er mikilvægt að Ísland fullgildi samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks?
Meginmarkmið samningsins er að tryggja fötluðu fólki tækifæri til sjáfstæðs og eðlilegs lífs og verja það fyrir mismunun á ýmsum mikilvægum sviðum.
Með fullgildingu samningsins skulbindur ríkið sig til að tryggja fötluðu fólki öll þau lágmarksréttindi sem samningurinn mælir fyrir um og til að gera nauðsynlegar breytingar á íslenskum lögum, reglum, stjórnsýsluframkvæmd og þjónustu til að tryggja að kröfur sem samningurinn gerir verði uppfylltar.
Þegar ríki fullgildir samninginn skuldbindur það sig til að gefa eftirlitsnefnd sem starfar samkvæmt samningnum reglulega skýrslur um hvað það hefur gert til að efna skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum. Við þá skýrslugjöf skulu ríki hafa samráð við fatlað fólk með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd. Eftirlitsnefndin fjallar um skýrslurnar og beinir síðan tilmælum sínum til ríkjanna um það sem betur má fara og brýnt er að gera. Þessar skýrslur og umfjöllun nefndarinnar um þær og tilmæli hennar um ráðstafanir og úrbætur fela í sér mjög mikilvægt aðhald gagnvart hlutaðeigandi ríkjum og gagnlegar leiðbeiningar fyrir stjórnvöld um hvað þau þurfa að gera og bæta til að uppfylla kröfur samningsins.
Valkvæður viðauki við samninginn.
Ísland undirritaði valkvæðan viðauka við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks um leið og það undirritaði samninginn sjálfan árið 2007. Valkvæði viðaukinn mælir fyrir um kæruleið fyrir einstaklinga og hópa sem telja að íslensk stjórnvöld hafi ekki veitt þeim þann rétt sem þeim ber samkvæmt samningnum og hafa árangurslaust nýtt þau úrræði sem þeir hafa samkvæmt íslenskum lögum og stjórnkerfi til að ná því fram sem þeir telja sig eiga rétt á samkvæmt samningnum. Eftirlitnefndin getur óskað upplýsinga frá ríkjum og beint tilmælum til þeirra. Með því að fullgilda valkvæða viðaukann verður virkara aðhald með ríkjum um að framfylgja samningnum, réttaröryggi fatlaðs fólks meira og mannréttindi þess betur varin.
Lögfesting samningsins.
Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins var tekinn í íslensk lög árið 2013. Það var gert til að tryggja enn betur en gert var með fullgildingu samningsins þau réttindi sem samningurinn mælir fyrir um.
Sömu rök eiga við um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Með því að lögfesta samninginn verður mannréttindum fatlaðs fólks veitt aukin vernd og réttaröryggið eykst. Fatlaður einstaklingur getur þá borið ákvæði samningsins fyrir sig sem ótvíræða réttarreglu fyrir dómi eða stjórnvöldum. Lögfesting mun vekja jafnt almenning og þá sem fjalla um málefni fatlaðs fólks fyrir dómstólum, í stjórnsýslu og við undirbúning að lagasetningu, til frekari vitundar um mannréttindi fatlaðs fólks og þá virðingu sem verður að ætlast til að þeim sé sýnd í réttarríki. Lögfesting samningsins um fatlað fólk mun og auka, á alþjóðavettvangi, traust á virðingu íslenska ríkisins fyrir mannréttindum fatlaðs fólks.
Þingsályktunartillögu um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi um fatlaðs fólks má lesa hér: