Þórir Gunnarsson, Harpa Björnsdóttir og Kristinn Jónasson hlutu Múrbrjótinn 2021. Á myndinni eru einnig Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra.
Múrbrjótur Landssamtakanna Þroskahjálpar, var afhentur í dag, 3. desember, á alþjóðlegum degi fatlaðs fólks.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, nýr félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, afhenti Múrbrjótinn við hátíðlega athöfn en í ár voru þrír einstaklingar sem hlutu viðurkenninguna.
Kynnir var Andri Freyr Hilmarsson, sem vakið hefur mikla athygli í þáttunum Með Okkar Augum.
Handhafar Múrbrjótsins 2021
Þórir Gunnarsson: Fyrir baráttu fyrir aðgengi að listnámi án aðgreiningar og framlag á sviði lista
Þórir er öflugur listamaður sem lætur ekki mótlætið stöðva sig. Hann er fyrsti listamaðurinn með þroskahömlun sem hefur sótt um í Listaháskóla Íslands og komst í viðtal, en því miður komst hann ekki inn. Hann er brautryðjandi í baráttu listafólks með þroskahömlun í að sækjast eftir menntun á sviði lista. Á sínum tíma fékk hann ekki tækifæri til þess að stunda framhaldsnám eftir grunnskólagöngu því að engar starfsbrautir voru á þeim tíma. Hann hefur mikla þrautseigju og er frábær fyrirmynd.
Harpa Björnsdóttir: Fyrir baráttu fyrir lista- og menningarlífi án aðgreiningar
Vann verkefnið ,,Hugar tvinnast – þróun listnáms á háskólastigi fyrir ófatlaða og fatlaða nemendur saman ,,Ég vil bara meira‘‘.
Inngildandi listheimur sem var útskriftarverkefni (Meistaranám úr listakennsludeild Listaháskóla Íslands). Hún hélt námskeið í skólanum þar sem fatlað fólk gat tekið þátt og fengið metnar einingar í listnámi á háskólastigi. Barðist fyrir því að fá að halda þetta námskeið þar sem fatlaðir og ófatlaðir unnu saman og stuðlaði þannig að viðhorfsbreytingum sem opnar fleiri dyr fyrir okkar hóp og eykur mögulega tækifæri fyrir fatlað fólk að stunda listnám til jafns við aðra og vonum við að þessi viðurkenning verði hvatning fyrir Listaháskóla Íslands í að bjóða fólki með fötlun velkomið.
Kristinn Jónasson: Fyrir mikilvægt framtak og öflugt íþróttastarf í þágu fatlaðra barna
Kristinn hefur sýnt mikinn metnað í að bjóða upp á íþróttaiðkun fyrir fötluð börn. Hann er stofnandi og þjálfari Special Olympics körfuboltaliðsins hjá Haukum í Hafnarfirði. Mikilvægt framtak og starf sem gefur fötluðum börnum tækifæri til íþróttaiðkunar innan almenns íþróttafélags. Hefur vakið mikla eftirtekt og er hvatning fyrir önnur íþróttafélög í að auka framboð sitt fyrir okkar hóp.
Alþjóðadagur fatlaðs fólks var fyrst haldinn árið 1992 af Sameinuðu þjóðunum í þeim tilgangi að vekja athygli á málefnum og réttindum fatlaðs fólks um allan heim og til að auka vitund almennings um mikilvægi þess að skapa samfélög án aðgreininar þar sem fatlað fólk er þátttakendur á öllum sviðum.
Þroskahjálp hefur frá árinu 1993 haldið upp á þennan dag með því að veita Múrbrjóta. Hann hljóta þau sem þykja hafa sýnt frumkvæði og ýtt undir nýsköpun varðandi þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu og þannig sýnt mikilvægt frumkvæði og framtak við að brjóta niður múra í samfélaginu, sem og viðhorfum fólks sem hindra að fatlað fólk fái þau tækifæri sem það á að njóta til jafns við aðra.