Landssamtökin Þroskahjálp hafa hlotið styrk frá utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra til þess að styðja við menntun og samfélagsþátttöku fatlaðra barna í Mangochi-héraði í Malaví.
Fatlað fólk í Malaví býr við einhverjar erfiðustu aðstæður sem hugsast getur. Vegna þeirra áhrifa sem COVID-19 hefur haft og mun hafa á efnahag þjóða má telja víst að staða fatlaðs fólks verði enn erfiðari á næstu árum. Til þess að uppfylla meginmarkmið heimsmarkmiða SÞ, „Enginn skilinn eftir“, er mjög brýnt að gæta sérstaklega að viðkvæmustu hópunum í öllu uppbyggingarstarfi eftir heimsfaraldur COVID-19, ekki síst í fátækum ríkjum þar sem bjargir voru fyrir af skornum skammti og staða fatlaðs fólks mjög erfið. Í yfirlýsingu frá utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra Norðurlandanna sem birt var þann 18. ágúst 2020 kom fram að yfirvofandi efnahagssamdráttur og aukin fátækt vegna heimsfaraldurs COVID-19 gæti orðið til þess að nærri tíu milljónir barna hætti alfarið í skóla fyrir lok ársins og að milljónir verði á eftir í námi.
Markmið verkefnisins er að auka möguleika fatlaðra barna til náms og þátttöku í samfélaginu og vinna að vitundarvakningu um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, en stjórnvöld í Malaví gerðust aðili að samningnum árið 2009. Verkefnið verður unnið í samvinnu við FEDOMA, samtökum fatlaðs fólks í Malaví og verður hluti verkefnisins stuðningur við starfsemi þeirra á svæðinu.