Þroskahjálp spyr forsætisráðherra eftir gerð lífskjarasamninga:

             

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

 

Afrit:

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra

Ásmundur Daði Einarsson, félags- og barnamálaráðherra

Ágæti forsætisráðherra.

 Landssamtökin Þroskahjálp fagna þeirri áherslu sem er á hagsmuni fólks sem býr við bág kjör í aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur kynnt til stuðnings samningum aðila vinnumarkaðarins.

Samtökin geta þó ekki látið hjá líða að lýsa mikum vonbrigðum og áhyggjum yfir stöðu þeirra sem búa við verstu kjörin í íslensku samfélagi, þ.e. lífeyrisþega sem hafa engar aðrar tekjur en bætur frá Tryggingastofnun. Þær bætur eru af einhverjum óútskýrðum ástæðum umtalsvert lægri (u.þ.b. 30 þús kr. á mán.) en atvinnuleysisbætur sem enginn er þó of sæll af en flestir þurfa þó sem betur fer aðeins tímabundið að láta duga fyrir framfærslu sinni. Mjög margt fatlað fólk þarf hins vegar að draga fram lífið á örorkubótum árum saman og margir allt lífð og hefur lítil eða engin tækifæri til að afla sér annarra tekna. 

Landssamtökin Þroskahjálp verða því, hæstvirtur forsætisráðherra, að spyrja þig og ríkisstjórn þína með hvaða hætti þær aðgerðir sem ríkisstjórn þín hefur nú kynnt bæta stöðu þessa hóps sem býr við alverstu kjörin í íslensku samfélagi.

Samtökin óska einnig eftir að þú og ríkisstjórn þín upplýsið fólkið sem býr við þessi sultarkjör, 247 þúsund krónur á mánuði fyrir skatt, um hvaða ráðagerðir þið hafið um aðgerðir til að bæta kjör þessa fólks.

 Með von og ósk um skjót og skýr svör.

 

 Reykjavík 4. apríl 2019

Virðingarfyllst,

f.h. Landssamtakanna Þroskahjálpar,

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður