Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar [1] um frumvarp til laga um vernd uppljóstrara, 362 mál.

Landssamtökin Þroskahjálp fagna þessu frumvarpi og telja mjög mikilvægt m.t.t. hagsmuna alls almennings og samfélagsins að uppljóstrurum sé tryggð fullnægjandi, raunhæf og virk  vernd með lögum. Það er mjög mikilvægt til að stuðla að því að það mikilvæga aðhald sem uppljóstrar veita gegn spillingu, misnotkun valds og almannafjár og brotum gegn lögum og reglum virki og hafi þau áhrif sem það getur haft og til er ætlast.

 Þetta aðhald skiptir mjög miklu máli fyrir ýmsa berskjaldaða  hópa, s.s. fatlað fólk, sem er oft mjög háð þjónustu af ýmsu tagi til að geta notið margvíslegra mannréttinda og tækifæra til jafns við aðra, eins og það á rétt til samkvæmt stjórnarskrá, almennum lögum og samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur fullgilt og þar með skuldbundið sig til að virða og framfylgja.

Samtökin taka undir ábendingar um að það er mjög vafasamt og til þess fallið að draga verulega úr áhrifum laganna og minnka líkur á að þau markmið sem þau hafa náist að láta hvatirnar að baki uppljóstrun skipta máli.

Rétt og eðlilegt er hins vegar að gera kröfu um að uppljóstrari þurfi að vera í góðri trú um að upplýsingar sem hann gefur séu réttar til að hann njóti verndar laganna.

 

Virðingarfyllst,

 

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar.

 

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

 



[1] Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og fötluð börn. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum. Um 20 félög eiga aðild að samtökunum með um 6 þúsund félagsmenn. 

Frumvarpið sem umsögnin á við má skoða hér